Maron mokfiskar í netin

Deila:

Nú er líf og fjör í Grindavíkurhöfn á ný eftir langt verkfall. Bátarnir landa góðum afla hver á eftir öðrum og vinnsla komin af stað í öllum fiskvinnsluhúsum.

„Þetta lítur lífvænlegar út en undanfarnar vikur. Manni fannst það ekki gott að sjá flotann rugga við bryggju endalaust. En nú líkar manni útsýnið út gluggana vel. Það er allt á fullu. Þetta er allt að komast af stað,“ sagði Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík í samtali við kvotinn.is nú fyrir hádegið.

Nú eru þrír stórir línubátar í löndun, Sturla, Tómas Þorvaldsson og Páll Jónsson  og fjórir lönduðu í gær, Sighvatur, Kristín, Valdimar og Hrafn og von er á Fjölni á  morgun.  Togbátarnir Oddgeir og Vörður lönduðu úr fyrst túrunum sínum á Grundarfirði, en þeir eru nú komnir hérna suður fyrir og er von á þeim til Grindavíkur fyrir bræluna, sem von er á á morgun

Minni bátarnir, sem reyndar eru orðnir nokkuð stórir, eru líka byrjaðir að landa, Auður Vésteins og Gísli Súrsson og nýja Daðeyin. Svo eru netabátarnir að mokfiska. Maron landaði tvisvar í gær, samtals 30 tonnum af ekta fiski í saltið fyrir Portúgal, Grímsnesið landaði líka í gær, en var með eitthvað minna. Erling landaði líka í gær um 25 tonnum úr netunum.

Línubátarnir voru að landa eftir tvær lagnir, voru að fá 50 til 60 kör í lögn. Nú eru þeir að landa eftir þrjár lagnir og eru með vel yfir 200 kör.

Auður Vésteins var með 11 tonn og Gísli Súrsson með 15 tonn í gær en aðrir í litla kerfinu með minna.
Á myndinni er verið að landa úr Maroni, bolta þorski, svokölluðum Suðurnesjabeljum. Geímsnesið er fyrir aftan Maron. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: