Loðnuveiðum Norðmanna lokið

Deila:

Loðnuveiðum Norðmanna í íslensku lögsögunni þetta veiðitímabilið er lokið. Eftirlitsstöð norsku fiskistofunnar (Fiskeridirektoratet) í Björgvin tilkynnti Landhelgisgæslunni þetta í gær morgun.

Norðmenn höfðu frest til miðnættis í gær kvöld til að veiða loðnukvóta sinn, ríflega 59 þúsund tonn. Samkvæmt útreikningum Landhelgisgæslunnar eru ekki nema um 500 tonn enn óveidd af þeim kvóta. Norsku skipin eru ýmist á heimleið eða farin til kolmunnaveiða við Færeyjar enda hamlar veður veiðum á íslensku miðunum.

Færeyingar og Grænlendingar mega veiða loðnu í íslensku lögsögunni út aprílmánuð. Færeysku skipin hafa veitt um 6.400 tonn en þau grænlensku tæplega tvö þúsund tonn.

Varðskipið Týr er nú við eftirlit á loðnumiðunum austur af landinu. Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður tók þessa fallegu mynd út af Langanesi fyrir nokkru. Vinstra megin við Tý sést eitt af norsku loðnuskipunum. Hægt er að sjá myndina í fullri stærð með því að smella á hana.

 

Deila: