Leggja til að heimila 25% VS-afla á grásleppuveiðum

Deila:

Landssamband smábátaeigenda hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis fjórar breytingartillögur vegna frumvarps um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Frumvarpið er nú í samráðsgátt stjórnvalda. Í fyrsta lagi leggur til að ákvæði um 15% flutning aflaheimilda á milli fiskveiðiára taki einnig til veiðiheimilda sem fluttar eru til skips innan fiskveiðiársins. Fram kemur að útgerð margra smábáta sé háð viðbótarheimildum sem leigðar eru frá öðrum skipum. Það valdi óhagfræði að geta ekki flutt hlutaf af þeim yfir á næsta fiskveiðiár.

Í öðru lagi er lagt til að reglan um að um helmingur undirmáls teljist ekki til kvóta nái líka til strandveiða – að það teljist ekki til leyfilegs dagsafla hjá viðkomandi. Þá leggur LS til að línuívilnun gildi fyrir alla dagróðrarbáta án tillits til þess hvernig línan er meðhöndluð. Í því samhengi er bent á að sótspor við línuvilnun á þorski á smábátum sé að meðaltali þriðjungur þess sem það mælist við togveiðar. Umhverfissjónarmið ættu þannig ekki að standa í vegi fyrir því að fallist verði á að efla línuveiðar smábáta. LS leggur jafnframt til að prósentur línuívilnunar verði hækkaðar úr 20 í 30% og úr 15 í 20%.

Loks leggur LS til breytingar vegna VS-afla. LS fer þess á leit að heimild til VS-afla við grásleppuveiðar verði 25%. Þannig væri hægt að mæta þeim aðstæðum sem upp koma þegar mikill þorskur er á grásleppumiðum. Jafnframt væri breytingin til þess fallin að opna hefðbundnum grásleppubátum leið til að taka þátt í vertíðinni. Margir þeirra séu án veiðiheimilda í þorski og erfitt er að fá leigðan kvóta.

Tillögurnar má í heild sjá hér.

Deila: