Aukinn áhugi framhaldsskólanema á sjávarútvegi

Deila:

Á annað hundrað framhaldsskólanemendur heimsóttu Íslenska sjávarklasann í síðustu viku og fræddust um starfsemina þar sem og sjávarútveg í heild sinni. Þór Sigfússon stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans tekur á móti nemendunum en einnig hefur hann heimsótt krakkana í skólunum. Á fimmtudag hitti hann nemendur Verslunarskóla Íslands og létu þeir mjög vel af heimsókninni. Nemendurnir eru mjög áhugasamir og margir hverjir klárir með sínar fyrstu hugmyndir.

„Nokkrir hafa gengið út úr klasanum með efnivið í verkefnin sín og erum við spennt að sjá framhaldið hjá þeim.

Á síðasta ári tók Íslenski sjávarklasinn á móti hópum frá mörgum framhaldsskólum sem varð til þess að mikil aukning var í sjávartengdum hugmyndum í frumkvöðlakeppni framhaldsskóla. Ungt fólk sér tækifæri í verðmætasköpun og tengir sjávarútveg ekki einungis við veiðar og vinnslu og miðað við áhuga nemendanna í ár eigum við von á enn fleiri hugmyndum í næstu keppni,“ segir í frétt á heimasíðu sjávarklasans.

Deila: