Nýr björgunarbátur í Bolungarvík

Deila:

Björgunarsveitin Ernir í Bolungavík hefur keypt annan björgunarbát til viðbótar við Gísla Hjalta. Sigurjón Sveinsson, formaður sveitarinnar sagði í samtali við Bæjarins besta að undanfarin þrjú ár hefði verið í athugun að endurnýja björgunarbát sveitarinnar. Kaupin nú hefðu komið óvænt. Það hefði skyndilega staðið til boða bátur sem Ernismönnum leist vel á og samningar náðust við fyrri eiganda sem var björgunarsveitin Ársæll í Reykjavík. Báturinn fékkst á góðu verði og hann hefur að fullu verið greiddur sagði Sigurjón.

Sigurjón Sveinsson

Ástæða þess að endurnýja þurfti er að sögn Sigurjóns sú að Gísli Hjalta er að verða 32 ára gamall og hann er auk þess opinn. Nýi báturinn er bæði lengri og breiðari auk þess að vera  yfirbyggður  og til dæmis verður pláss fyrir sjúkrabörur innandyra, sem hefur mikla þýðingu.

„Við vonumst til þess að bæta öryggi sjómanna við Djúp með kaupunum. Til þess er leikurinn gerður“ sagði Sigurjón Sveinsson, formaður björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungavík að lokum.

Báturinn er kominn til Bolungavíkur og var reyndur í gær á Víkinni. Bjarni Benediktsson tók þá myndir af bátnum.

Frétt og myndir bb.is

 

Deila: