Aflaaukning í þorski og ýsu við Færeyjar

Deila:

Landanir á fiski öðrum en uppssjávarfiski í Færeyjum voru 12.083 tonn á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er aukning um 593 tonn frá sama tíma í fyrra, eða 5,3%. Mikil aukning hefur orðið í löndunum á þorski og ýsu, en töluverður samdráttur í löndunum á ufsa.

Alls var landað rétt ríflega 4.000 tonn af þorski á þessum tveimur mánuðum. Það er vöxtur um 750 tonn eða tæplega fjórðung. Enn meiri aukning varð í löndunum af ýsu. Nú komu 1.382 tonn á land, en aðeins 722 tonn á sama tíma í fyrra. Það er aukning um 91%. Af ufsa bárust 3.724 tonn á land á móti 5.097 tonnum í fyrra. Það er samdráttur um ríflega fjórðung.

Veiðar á skötusel nærri fjórfölduðust á þessu tveggja mánaða tímabili. Aflinn nú varð 414 tonn, en á sama tíma í fyrra höfðu aðeins 111 tonn borist á land. Samdráttur varð á löndunum á grálúðu. Aflinn féll úr 320 í 225 tonn. Loks má nefna að afli af skelfiski tvöfaldaðist á umræddu tímabili. Aflinn nú varð 1.261 tonn, en í fyrra var hann 612 tonn.

Deila: