Loðnukvóti Íslands eykst um 55.400 tonn

Deila:

Loðnukvóti íslensku skipanna hefur verið aukinn um 55.400 tonn, sem er hlutur þeirra úr viðbót upp 77.000 tonn, sem gefin var út fyrir helgi. Heildarkvóti þeirra á vertíðinni verður því um 176.000 tonn í í ár komi ekki til frekari aukningar. Afli skipanna er nú orðinn 69.000 tonn.

Skipin hafa ekki stundað veiðar í nokkra dag og héldu flest þeirra til kolmunnaveiði í lögsögu Færeyja, þegar samningar voru í höfn við Færeyinga um gagnkvæmar veiðiheimildir og aðgang að lögsögu þeirra. Að öllum líkindum munu skipin ekki hefja loðnuveiðar á ný fyrr en hrognafylling í loðnunni verður nægileg til heilfrystingar á Japansmarkað og til hrognatöku, sem varla verður fyrr en að áliðnum mánuðinum.

Töluverður fjöldi norskra loðnuskipa hefur verið hér við landa undanfarna daga að loðnuveiðum samkvæmt samningum  milli Íslands og Noregs en afli þeirra hefur verið lítill.

Aflahæstu loðnuskipin nú eru HB Grandaskipin Venus NS og Víkingur AK með um 10.300 tonn hvort skip. Næstur er Beitir NK með 7.800 tonn og þá Vilhelm Þorsteinsson EA með 7.000 tonn.

Deila: