Líf og fjör við Grindavíkurhöfn

Deila:

Það var líf og fjör við Grindavíkurhöfn í gær. Humarbátar skinneyjar-Þinganess voru að landa humri og karfa, frystitogarinn Gnúpur var kominn að landi og er landað úr honum í dag. Vísisbátarnir landa svo nokkuð reglulega í Grindavík.

Arnfinnur Antonsson, vigtarmaður á höfninni í Grindavík, segir að humarbátarnir landi reglulega í Grindavík, þegar þeir séu á vestursvæðinu, landi á mánudögum og fimmtudögum. Þetta eru Skinney, Þórir og Þinganes.  Núna komu um 10 tonn af humri upp úr bátunum að meðtöldum ís og vatni, sem gerir um 1.600 til 1.700 kíló, þegar það hefur verið skilið frá. Þá voru þeir með töluvert af gullkarfa, smávegis af þorski og öðru blandi. Bátarnir eru að humarveiðum suðvestur úr Reykjanesinu.

Arnfinnur segir að ágætis líf hafi verið við höfnina í sumar. „Vísisbátarnir og bátarnir frá Gjögri hafa verið að landa hjá okkur og togararnir hjá Þorbirni. Svo eru strandveiðibátarnir að landa, þegar þeir róa,“ segir Arnfinnur.

Það þarf hörkumannskap til að landa. Einn þeirra er Leon Ingi Stefánsson, sem nýlega slóst í hópinn.

Á efstu myndinni eru skipin að landa við Miðbakka, ssem nýlega hefur verið tekinn í notkun eftir gagngerar breytingar. Þinganes ÁR er lengst til vinstri, þá kemur Skinney SF og aftast er Þórir SF. Á milli þeirra er línubáturinn Sturla GK. Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

Deila: