Falleg loðna fryst á Vopnafirði

Deila:

Loðnufrysting hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði 14. janúar sl. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra kom Venus NS þá með loðnu að landi en síðan hefur loðna verið fryst úr förmum Venusar og Víkings AK.

,,Þetta er mjög stór og falleg loðna, átulítil eða átulaus, og megnið hefur farið í stærðarflokkinn 30 til 40 stykki í kílóinu. Meðalstærðin er um 35 stykki í kílóinu. Nú skilst mér á skipstjórunum að von sé á enn stærri loðnu og það verður gaman að sjá stærðina þegar við byrjun að landa úr Víkingi síðar í dag,” sagði Magnús en er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda, en þá var verið að ljúka við vinnslu á afla sem Venus kom með til Vopnafjarðar. Víkingur var þá í höfn og beið löndunar.

,,Það hefur verið fullur gangur í vinnslunni hjá okkur fyrir utan stöku hlé sem hafa orðið. Þau skrifast á rysjótt tíðarfar upp á síðkastið. Það er reyndar leiðinda veður núna og spáin fyrir kvöldið og nóttina er ekki góð hér á norðausturhorninu,” sagði Magnús Róbertsson.

 

Deila: