Hafró hálfnuð við loðnumælingar

Deila:

150 þúsund tonn af loðnu þurfa að komast á hrygningarstöðvar svo hægt sé að auka við aflaheimildir, segir líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun í samtali á ruv.is. Stofnmats á loðnu má vænta á næstu vikum.

Hálfnuð með rannsóknina

Rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, liggja nú í vari á Ísafirði, en undanfarna daga hafa þau mælt stofnstærð hrygningarloðnu fyrir norðan og austan landið, ásamt vísindamönnum Hafró sem eru á Polar Amaroq. „Verkefnið er í raun bara hálfnað, áður en að verkefnið er búið þurfum við að taka aðra yfirferð frá til vestri til austurs. Það er mikilvægt að mæla með og á móti göngu loðnunnar þegar hún er í hrygnigöngu,“ segir Birkir Bárðarson, líffræðingur og verkefnastjóri loðnumælinga hjá Hafrannsóknastofnun.

Safna gögnum fyrir stofnmat

Mælingarnar byggjast á bergmálsmælingum og þá er líffræði loðnunnar skoðuð. Út frá stofnmati er tekin ákvörðun um viðbótaraflheimildir þessa fiskveiðiárs. Nú þegar hafa um 100 þúsund tonn af 120 þúsund tonna kvóta íslensku skipanna verið veidd. „Ef allt gengur vel þá gætum við gefið okkur viku til að komast til baka og fyrir þann tíma verður ekki hægt að gefa út stofnmat eða ráðgjöf.“ Þá þarf að vinna úr gögnum skipanna þriggja.

Aflaheimildir byggja ekki eingöngu á magni

Birkir segir að ekki sé hægt að auka aflaheimildir einungis út frá magni sem finnst. „Aflareglan sem er notuð í ráðgjöfinni hún byggir á því að við viljum skilja eftir 150 þúsund tonn með 95 prósent öryggi svo að óvissan í mælingunni kemur þar inn.“ 150 þúsund tonn af loðnu þurfa að komast á hrygningarstöðvar fyrir sunnan land og vestan til að tryggja næstu árganga en loðna verður að jafnaði einungis þriggja ára og hrygnir einu sinni á ævinni. Eftir það drepst hún.

Óvissa miðað við fyrri helming ferðar

Birkir segir að óvissa mælinganna felist helst í dreifingu á loðnunni, hvort hún sé jöfn eða hnappdreifð. „Okkur sýnist við fyrstu skoðun að það sé talsverð óvissa í mælingunni núna en það er allt í skoðun og við erum á kafi í að reikna hlutina eins og er.“

 

Deila: