Vilja þrepaskipt veiðigjald

Deila:

Formaður og framkvæmdastjóri LS hafa átt fund með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Á fundinum var farið yfir samþykktir aðalfundar LS þar sem sérstök áhersla var lögð á veiðigjöld, strandveiðar, makríl- og grásleppuveiðar.

Veiðigjaldið er mikið til umræðu og fara hér á eftir helstu áhersluatriði LS hvað það varðar.

LS vekur athygli á að hagnaður á árinu 2015 sem lagður er til grundvallar á útreikningi veiðigjalds er afar misjafn hjá einstökum útgerðarflokkum. Hagnaður báta <10 brt sem hlutfall af tekjum er aðeins 1%, en 26% hjá ísfisktogurum og aflamarksskipum >10 brt.

Smábátaeigendur munu að óbreyttu greiða rúmar 1.400 milljónir í veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári. Um 170 milljónir af þeirri upphæð eru vegna vinnslu sem þeir eiga enga aðild að. Krafa LS er að þessi hluti veiðigjaldsins verði leiðréttur strax.

Nauðsynlegt er að koma til móts við útgerðir smábáta með auknum afslætti á veiðigjaldi. Útgerð þeirra glímir við mikinn rekstrarvanda vegna lægra fiskverðs. Þorskur og ýsa eru 89% úthlutaðra þorskígilda krókaaflamarksbáta, þar af þorskur 78%.

Tillögur

  1. Gjaldið verði þrepaskipt þannig að fyrir samanlagðan afla skips að 50 þorskígildistonnum greiðist fjórðungur af fullu veiðigjaldi. Hlutfallið hækki svo með heimildum sem eru umfram ákveðin þrep upp að 2.000 þorskígildum.  Fyrir heimildir umfram það magn greiðist álag þannig að gjaldið skili sömu tekjum og gert er ráð fyrir.  b. Afsláttur verði veittur af veiðigjaldi á afla sem seldur er gegnum uppboðskerfi fiskmarkaða.
  2. Við endurskoðun laga um veiðigjald telur LS rétt að greiðendur verði greindir í útgerðarflokka sem beri hver og einn sitt veiðigjald. Við flokkun væri unnið út frá markmiðum laga um stjórn fiskveiða með hliðsjón af stærð skipa, aflasamsetningu, veiðiaðferðum, tengslum við fiskvinnslu, botnfisk- og uppsjávarveiðar.

Nánar má lesa um áherslur LS í öðrum málum, sem útgerð smábáta varðar á slóðinni:

http://www.smabatar.is/Efni%20sem%20fari%C3%B0%20var%20yfir%20%C3%A1%20fundinum.pdf

 

Deila: