Stefnt að enn frekari vexti í norsku fiskeldi

Deila:

Norsk stjórnvöld hafa nú markað stefnu um fyrirkomulag fiskeldis næstu árin. Samkvæmt stefnumótuninni mun fiskeldisframleiðslan aukast fyrsta kastið um 35 til 40 þúsund tonn að mati Nordea bankans og mun að öllum líkindum aukast enn frekar á næstu árum. Lífmassi í kvíunum eykst á næsta ári um 24 þúsund tonn. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva og segir þar ennfremur.

Met framleiðsluaukning frá árinu 2012

Laxeldisframleiðslan í Noregi jókst á árunum 2016 til 2018 um 130 þúsund tonn sem er mesti vöxtur sem hefur orðið frá árinu 2012. Áætlað er að framleiðslan í Noregi muni á næsta ári verða um 1, 3 milljónir tonna sem er nær 100 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi ári.

Umferðarljósakerfið

Eins og kunnugt er hafa norsk stjórnvöld unnið að stefnumörkun sem byggist á svo kölluðu umferðaljósakerfi. Líkt og glögglega kom fram í máli Dr. Geir Lasse Taranger, frá norsku Hafrannsóknastofnuninni (Havforskningsinstituttet) á fundi sem Sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknastofnunin efndu til í Reykjavík 27. september sl. er helsta vandamálið í norsku eldi bundið við laxalús. Er það liður í því að takast á við þennan vanda að eldissvæði eru skilgreind með hliðsjón af alvarleika hans. Fyrir nokkru voru settar fram tillögur af hálfu sérfræðinga í Noregi um að skipta landinu upp í rauð svæði, þar sem vandinn er verstur, græn svæði þar sem vandinn er lítill eða enginn og loks gul sem má segja að séu svæði sem liggja þar á milli. Í daglegu tali hefur þetta fyrirkomulag verið nefnt umferðarljósastýringin.

Norks stjórnvöld hafa haft þessar tillögur til athugunar og kynntu svo niðurstöðu sína í lok október mánaðar.

Fyrirkomulagið
Í stórum dráttum verður fyrirkomulagið eftirfarandi:

Á grænum svæðum er gert ráð fyrir vexti í framleiðslunni. Heimilt er að auka framleiðsluna um 6 prósent á grænu svæðunum, sem svarar til heildarframleiðsluaukningar á landsvísu um 3 prósent. Sé staðan jafn góð eða betri að tveimur árum liðnum – svæði verði sem sagt áfram græn, – má enn auka framleiðsluna um 6 prósent.

Á gulu svæðunum verður um að ræða óbreytta framleiðslu og sama er að segja um rauðu svæðin.

Markverður árangur hefur náðst
Mikil áhersla er lögð á það í Noregi að sigrast á vandamálinu sem laxalúsin veldur í fiskeldinu. Verulegu fjármagni er varið, einkanlega af hálfu atvinnugreinarinnar og ýmsar aðferðir notaðar til að takast á við vandann og hafa þær skilað markverðum árangri. Því má ætla að til framtíðar litið muni fiskeldinu takast að sigrast á þessum vanda þó kostnaður því samfara verði mikill.

 

Deila: