100 þúsund hágæða máltíðir á dag frá Bíldudal
„Nú í ár slátrum við 10.000 fiskum á dag og flytjum út 5-6 daga vikunnar um 100 þúsund hágæða máltíðir að vestan á dag, eða á bilinu 40-50 tonn af slægðum laxi,“ segir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax á Bíldudal í samtali við ViðskiptaMoggann.
Arnarlax slátraði 6.000 tonnum af laxi á síðasta ári, en á þessu ári er stefnt að 10.000 tonna framleiðslu. Á næstu þremur til fimm árum er stefnt að því að tvöfalda þá tölu og framleiða nálægt 20.000 tonnum.
Síðasta ár var hagfellt
Fram kemur í viðtalinu að fyrirtækið hafi hagnast á síðasta ári um 2,7 milljarða íslenskra króna fyrir skatta, þó svo að laxaslátrun hafi einungis hafist hjá fyrirtækinu á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Hagnaðartalan er fengin með svokallaðri „Fair Value“-útreikniaðferð, en þar er lífmassinn í kvíum fyrirtækisins metinn á markaðsvirði. Þetta er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, IFRS, og kemur fram í uppgjöri norska eldisfyrirtækisins Salmar AS, sem er hluthafi í Arnarlaxi og skráð í kauphöllinni í Ósló.
Spurður að því hvort greinin sé komin á beinu brautina, eins og í Færeyjum og Noregi til dæmis, segist Kjartan vilja fara varlega í slíkar fullyrðingar. „Greinin hefur átt erfitt uppdráttar. Í Færeyjum tóku menn tvær kollsteypur áður en þeir komust á beinu brautina. Það eina sem ég get sagt er að síðasta ár var mjög hagfellt hjá okkur, aðstæður á mörkuðum voru góðar, verð á laxi er hátt, og það er fátt sem bendir til annars en að það muni haldast þannig.“
Búum að traustri grunngerð
Kjartan segir að Íslendingar búi að traustri grunngerð í fiskinum, söluferlar, dreifileiðir, starfsfólk og annað sé til staðar. „Það er þó margt óunnið í uppbyggingu greinarinnar og í þessu samtali við sveitarfélög og samfélagið. Það eru áskoranir eins og laxalúsin og genablöndun ef fiskar sleppa úr kvíum. Núna fyrst eru að verða til tekjur til skiptanna úr rekstrinum til að nota til að byggja upp ytra umhverfið, eins og gott eftirlit og aðhald, og ná sátt um greinina“, segir Kjartan Ólafsson í samtali við ViðskiptaMoggann.