Deila:

Helmingur kvótans af íslensku síldinni veiddur

Veiðar á íslenskri sumargotssíld ganga vel vestur af landinu, en einnig kemur nokkuð af íslensku síldinni sem meðafli við veiðar á norsk-íslensku síldinni. Leyfilegur heildarafli á þessu fiskveiðiári er 74.485 tonn. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt aflahlutdeild er 62.687 tonn. Útgerðirnar hafa svo keypt heimildir upp á 3.861 tonn af ríkinu í skiptum fyrir þorsk. Loks hafa 9.937 tonn verið flutt yfir frá síðasta fiskveiðiári.

Aflinn nú er, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, 37.549 tonn, sem er rétt rúmlega helmingur leyfilegt heildarafla. 20 skip hafa landað íslenskri síld frá því í haust. Aflahæsta skipið er Vilhelm Þorsteinsson EA með 6.146. Næstu skip eru Börkur NK með 4.302 tonn, Jóna Eðvalds SF með 4.026, Beitir NK með 2.802 tonn, Sigurður VE með 2.691 tonn, Venus NS með 2.639 tonn, Ásgrímur Halldórsson SF með 2.595 tonn og Heimaey VE með 2.438 tonn.

Deila: