Færeyingar og Rússar semja um fiskveiðar

Deila:

Færeyjar og Rússar hafa skrifað undir fiskveiðisamning fyrir næsta ár. Mjög litlar breytingar eru á  þessum samningi frá þeim gildir út þetta ár. Veiðiheimildir Færeyinga í botnfiski í Barentshafi verða óbreyttar. Þorskkvótinn verður 15.690 tonn, ýsukvótinn 1.569 tonn og af flatfiski verður heimilt að veiða 900 tonn.

Samningaviðræðurnar mörkuðust af óskum Rússa um verulega lækkun á rækjukvóta Færeyinga í Barentshafi. Sókn í rækjuna þar hefur farið vaxandi undanfarin ár og mun fleiri rússnesk skip eru nú að þessum veiðum. Niðurstaðan varð sú að rækjukvótinn var færður niður um 500 tonn og verður 4.500 tonn. Þó var sett sú klásúla í samninginn að Rússar kanni hvort mögulegt er að heimila Færeyingum veiði á 500 tonnum til viðbótar.

Kolmunnakvóti Rússa innan lögsögu Færeyja verður 82.000 tonn og er það aukning um 1.000 tonn. Aðrar veiðiheimildir Rússa í færeysku lögsögunni eru óbreyttar frá þessu ári

Þá hafa þjóðirnar rætt um að koma á bættu eftirliti og rafrænum aflatilkynningum. Slíkt fyrirkomulag er í gildi í samningum Færeyja við Noreg og Ísland. Stefnt er að  því að samið verði um sams konar fyrirkomulag milli Rússa og Færeyinga á næsta ári

 

Deila: