Fjarar undan laxveiði

Deila:

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2023 var um 32.300 fiskar eða um 25 % minnkun frá árinu 2022 og um 22 % undir meðalveiði áranna frá 1974. Þetta kemur fram á vef Hafró.

Þar segir að heildarfjöldi stangveiddra laxa sumarið 2023 hafi verið um 32.300 fiskar. Veiðin 2023 var um 9.000 löxum minni en hún var 2022.

„Í öllum landshlutum nema á Norðurlandi eystra var minni veiði í ám. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).

Laxveiði í ám sem byggir á veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 6.950 laxar. Það er um 4.000 löxum minna en veiddist 2022 þegar 10.553 laxar veiddust. 

Við samanburð á langtímaþróun á stangveiði þarf að taka tillit til þess að laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og að þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni.

Almennt hefur dánartala laxa í sjó í Norður Atlantshafi farið vaxandi en ástæður þess eru ekki þekktar. Bent hefur verið á þætti eins og loftslagsbreytingar, meðaflaveiði, áhrif fiskeldis og breytingar á búsvæðum í fersku vatni.”

Nánar hér.

Deila: