Grásleppuvertíðin hafin

Deila:

Fyrsti dagur í grásleppu var í gær á vorjafndægri 20. mars.  44 bátar voru komnir með gild leyfi á móti 35 í fyrra.  Eins og gjarnan gerist á fyrsta degi eru menn mættir á veiðistað á mínútunni átta þegar heimilt er að leggja netin samkvæmt frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeignda.

Samkvæmt reglugerð hefjast veiðar fyrst á svæðum D, E, F og G – Norðurland, Austurland að Garðskagavita.  Heimilt er að hefja veiðar 1. apríl í Faxaflóa, utanverðum Breiðafirði og Vestfjörðum.   Innanverður Breiðafjörður opnar síðan 20. maí.  Á þeim svæðum sem opna fyrst lýkur veiðum 2. júní, 14. júní á svæðum A, B1 og C og 2. ágúst í innanverðum Breiðafirði – B2.

Upphafsfjöldi veiðidaga er 20, sem endurskoðað verður þegar ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir um páska.  Í fyrra voru veiðidagar 46, en fjórar vertíðir þar á undan 32.

Á síðustu tveimur vertíðum stunduðu um 250 bátar veiðarnar.  Meðalfjöldi á sl fimm árum eru 284 leyfi í notkun flest árið 2015 – 320, en fæstir 2014 aðeins 223 bátar á grásleppuveiðum það árið.

Eins og oft áður er nokkur óvissa um verð fyrir grásleppuna.  Þau verð sem nefnd hafa verið eru á bilinu 190 Kr/kg upp í 210 fyrir óskorna grásleppu.  Verðið nú er nokkru hærra en upphafsverð á síðustu vertíð, en þá hækkaði það þegar leið á og skilaði 195 króna meðalverði.

Markaðir fyrir grásleppu eru í jafnvægi þar sem veiði undanfarin ár hefur verið á pari við eftirspurn.   Útflutningsverð fyrir söltuð hrogn og grásleppukavíar hækkaði í fyrra, en verð fyrir frysta grásleppa á Kína gaf örlítið eftir.   Vertíðin í fyrra skilaði 900 milljónum í aflaverðmæti og útflutningsverðmæti námu 1,6 milljarði.

Upplýsingasíða Fiskistofu um grásleppuveiðar

 

Deila: