IceFish styrkir tvo afbragðs nemendur
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti í gær tvo veglega námsstyrki úr IceFish-menntasjóði Íslensku sjávarútvegssýningarinnar við hátíðlega athöfn í Íslenska sjávarklasanum. Styrkina hlutu að þessu sinni þær Þórunn Eydís Hraundal, nemi í gæðastjórnun við Fisktækniskóla Íslands og Herborg Þorláksdóttir, nemi í Marel-vinnslutækni við Fisktækniskóla Íslands. Hvor styrkur er upp á 500 þúsund krónur.
Við afhendingu styrkjanna tilkynnti Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, að ákveðið hefði verið að veita áframhaldandi námsstyrki úr sjóðnum næstu tvö árin hið minnsta, en næsta IceFishsýning er haldin árið 2020.
„Mér er það heiður að afhenda þessa veglegu styrki úr IceFish-námssjóðnum, enda skiptir miklu máli að hvetja til dáða nemendur sem taka þátt í að skapa ný tækifæri í sjávarútvegsgreinum. Í sjávarútvegi og tengdum greinum eru að skapast fjölmörg ný störf samfara auknum rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun, og menntun og menntastefna hlýtur ávallt að horfa til þess sem hæst ber í þeim efnum. Námsstyrkirnir úr IceFish-sjóðnum örva nemendur til að skara fram úr og ná árangri í sínum fögum og þeim ber að fagna,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
„Við höfum sem skipuleggjendur Íslensku sjávarútvegssýningarinnar ríkan skilning á mikilvægi áframhaldandi nýsköpunar og þróunar í útgerð- og landvinnslu á Íslandi.Við teljum að besta leiðin til að efla það starf felist í að styðja við bakið á þjálfun og menntun yngri kynslóðarinnar. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá styrkþegum okkar 2017 og okkur er það því mikil ánægja að geta núna í ár, 2018, styrkt tvo mjög frambærilega og efnilega nemendur Fisktækniskóla Íslands. Við vonum að þessir styrkir muni ekki aðeins gagnast þeim heldur líka sjávarútveginum í heild sinni á komandi árum. Þá höfum við ákveðið að halda áfram þessu verkefni og veita framúrskarandi námsmönnum í sjávarútvegsgreinum samsvarandi styrki næstu tvö árin hið minnsta,“ segir Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri IceFish.
„Námsstyrkurinn frá IceFish-menntasjóðnum upp á 500 þúsund krónur var ákaflega vel þeginn og jákvæður stuðningur við nám mitt. Styrkurinn hjálpaði mér að ljúka menntun minni í Marel-tækni í Fisktækniskóla Íslands og tryggja mér starf sem gæðastjóra hjá fiskeldisfyrirtæki Samherja, Íslandsbleikju ehf.,“ segir Hallgrímur Jónsson, handhafi námsstyrks IceFish 2017.
„Það er mikil upphefð að fá IceFish-styrkinn og hjálpar mér mikið fjárhagslega. Ég var hætt við námið því að ég sá ekki fram á að geta fjármagnað það, verandi nýkomin úr öðru námi. En styrkurinn úr IceFish-námssjóðnum gjörbreytir stöðunni og ég er ákaflega stolt og þakklát,“ segir Herborg Þorláksdóttir, nemi í Marel-vinnslutækni við Fisktækniskóla Íslands.
„Styrkurinn úr IceFish-námssjóðnum hjálpar mér að ná lengra á menntabrautinni í sjávarútvegsfræðum og styður mig á mörgum sviðum. Hann er jákvæð og óvænt viðurkenning fyrir mig persónulega og það hvernig ég hef lagt mig fram í náminu, og styrkir þá ætlun mína að halda til framhaldsnáms í sjávarútvegs- og viðskiptafærði við Háskólann á Akureyri að loknu námi hjá Fisktækniskóla Íslands,“ segir Þórunn Eydís Hraundal, nemi í gæðastjórnun við Fisktækniskóla Íslands.
„Í kjölfar Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2014 gerðu forsvarsmenn hennar sér grein fyrir mikilvægi þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegarins og ákváðu að veita veglega námsstyrki til þeirra sem stunduðu nám í greininni. Fyrstu styrkirnir voru veittir árið 2017. Umsóknir um styrki voru metnar af dómnefnd sérfræðinga í sjávarútvegi, sem í sitja Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskóla íslands, Sigurjón Elíasson, fræðslu- og þróunarstjóri á alþjóðasviði Marel, Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka fiskvinnslustöðva, Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, og Bjarni Þór Jónsson, fulltrúi Mercator Media/Íslensku sjávarútvegssýningarinnar á Íslandi,“ segir í frétt um styrkveitinguna.
Fisktækniskóli Íslands var stofnaður í Grindavík árið 2010 í þeim tilgangi að uppfylla kröfur sjávarútvegsfyrirtækja í veiðum, vinnslu og fiskeldi til starfsfólks með viðeigandi þjálfun. Skólinn býður námsbrautir á sviði sjómennsku, fiskvinnslu og fiskeldi. Einnig er í boði netagerð eða „veiðitækni” í samstarfi við Fjölbrautaskólann á Suðurnesjum í Reykjanesbæ. Í fyrstu var aðeins boðið upp á tveggja ára grunnnám i Fisktækni en síðan hefur verið byggt ofan á það með sérhæfðari námsleiðum. IceFish-námssjóðnum er einkum ætlað að styrkja fólk til slíks framhaldsnáms.