Mikill samdráttur í laxveiði

Deila:

Samdráttur varð í laxveiði sumarið 2019. Heildarfjöldi stangveiddra laxa var um 28.800 fiskar, sem var sjöunda minnsta veiði sem skráð hefur verið frá árinu 1974 og sú minnsta frá árinu 2000. Mest varð minnkunin í veiði á vestanverðu landinu en aukning kom fram í ám á Norðausturlandi samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni.

Heildarfjöldi stangveiddra laxa sumarið 2019 var um 28.800 fiskar, sem var mikil minnkun frá 2018. Veiðin sú sjöunda minnsta frá árinu 1974 og sú minnsta frá árinu 2000. Nokkur munur var á milli landshluta, en mestur var samdrátturinn í ám á vestanverðu landinu en í allnokkrum ám á norðaustanverðu landinu var veiðin meiri en hún var 2018.

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 31. október.  Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sýna að alls veiddust um 28.800 laxar sem er sjöunda minnsta laxveiði frá 1974. Veiðin 2019 var um 16.500 löxum minni en hún var 2018. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).

Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 – 2019. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2019 eru bráðabirgðatölur.

Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Þegar litið er til veiða á villtum laxi eingöngu (ekki úr seiðasleppingum), að teknu tilliti til endurveiddra laxa, er líklegt að heildarstangveiðin árið 2019 hefði orðið um 20.000 laxar, sem væri minnsta stangveiði villtra laxa frá því farið var að skrá veiði í rafrænan gagnagrunn. Laxveiði minnkaði  í öllum landshlutum nema á Norðurlandi Eystra og Austurlandi. Sumarið 2019 einkenndist öðru fremur af miklum og fordæmalausum þurrkum allt sumarið sem gerði aðstæður til veiða afar erfiðar, einkum í dragám á vestanverðu landinu sem eru mjög háðar úrkomu yfir sumarið.

Vísbendingar eru um að minni laxgengd á Vesturlandi megi að hluta til rekja til lítils hrygningarárgangs 2014. Sá árgangur hefur mælst liðfár í seiðamælingum, auk þess sem vorið 2018 var þar fremur kalt og votviðrasamt sem hafði neikvæð áhrif á seiðagöngur til sjávar. Hins vegar var vorið 2018 hlýtt á austanverður landinu og gengu seiði þar úr fleiri en einum árgangi til sjávar. Fjöldi seiða í ám á austanverðu landinu hefur almennt farið vaxandi í seiðamælingum og eru sterkar vísbendingar um að það megi rekja til aukinna sleppinga í stangveiði og þar með stærri hrygningarstofna. Afkoma laxa í sjó skiptir miklu máli varðandi endurheimtur og vísbendingar eru um að endurheimtur hafi verið með lægsta móti 2019 a.m.k. á Vesturlandi en nákvæmar upplýsingar um þann þátt liggja ekki fyrir enn sem komið er.

Miklar sveiflur hafa átt sér stað á endurheimtum laxa úr sjávardvölinni undanfarin ár, t.d. árin 2012 og 2014 þar sem endurheimtur úr sjó voru mjög lágar, en árin 2013 og 2015 voru endurheimtur á hinn bóginn mjög góðar. Mikilvægt er að auk þekkingu á sjávardvöl laxa en dánartala laxa í sjó hefur hækkað við Norður-Atlantshaf á síðustu áratugum. Ástæður þess eru ekki þekktar og mikilvægt að leita frekari svara við því. Þegar dánartala hækkar ná færri fiskar sem ganga út sem gönguseiði að snúa til baka sem fullorðinn lax. Vísbendingar eru um að seiðaframleiðsla í ám hér á landi hafi almennt aukist, sem vegur á móti lægri endurheimtum. Aukningu í þéttleika seiða má að talsverðu leyti rekja til aukins fjölda laxa sem sleppt er í stangveiði (veiða-sleppa) sem skilar stærri hrygningarstofnum að hausti.

 

Deila: