Lax í ofni með sítrónugrasi, engifer og chili
Jæja, hvernig væri að hafa lax í kvöldmatinn. Alltaf er hægt að fá lax í verslunum, þökk sé vaxandi fiskeldi á Íslandi. Sömuleiðis er alltaf hægt fá eldisbleikju, ef fólk vill frekar bleikju en lax. Uppskriftir að laxaréttum eru sjálfsagt óendanlega margar og því væri líklega hægt að hafa lax í matinn alla daga ársins en aldrei eins. En hvað um það, þessa fínu uppskrift fundum við á heimasíðu Hagkaups, en þar er vafalítið hægt að fá allt sem með þarf í þennan rétt.
Við leggjum því til laxaveislu fyrir fólk á öllum aldri.
Innihald:
1 kg laxaflak
½ búnt ferskt kóríander (blöðin)
3 cm engiferrót, afhýdd og skorin í eldspýtur
2 stk stór hvítlauksrif, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar
1 stilkur sítrónugras, skorinn í þunnar skásneiðar
1 stk rauður chili, kjarnhreinsaður og skorinn í þunnar sneiðar
2½ dl ljóst Amé (drykkur sem fæst í heilsu búðum og stórmörkuðum, má nota hvítvín)
2 msk ólífuolía
salt og nýmalaður svartur pipar
Dressing:
¼ stk agúrka, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í fína teninga
4 msk ristuð sesamolía
6 msk fiskisósa
1½ dl vatn með 1 msk af lífrænum grænmetiskrafti
1½ msk dökkt agave eða hunang
¼ stk lítill chili, skorinn í þunnar sneiðar
Lax:
Laxinn er settur í eldfast mót. Engifer, kóríander, hvítlauk, sítrónugrasi og chili er dreift yfir flakið. Amé-inu og ólífuolíu er hellt yfir og kryddað með salti og pipar. Setjið álpappír eða lok yfir og bakið í ofní í 20–25 mín. við 180°C. Dressing: Hrærið innihaldinu saman og hellið yfir laxinn rétt áður en hann er borinn fram.