Að þora að sættast

Deila:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við embætti sjávarútvegsráðherra í upphafi árs 2017. Það hefur gustað um sjávarútveginn að undanförnu og vildi Sóknarfæri því grípa tækifærið og forvitnast aðeins um áherslur ráðherra í sjávarútvegsmálum, vegferð fiskiðnaðarins og framtíðarþróun. Eftirfarandi viðtal við hana birtist fyrst í Sóknarfæri síðastliðinn föstudag.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mynd

Var það óskaembætti að taka við ráðherradómi sjávarútvegs- og landbúnaðarmála? Blundar í þér sjávarútvegsáhugi?

„Já, það má alveg segja að ég sé komin í óskastöðu hér í þessu ráðuneyti. Báðar þessar greinar, landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn, hafa verið undirstöðuatvinnuvegir Íslendinga árum og öldum saman. En auk þess að hafa efnahagslega þýðingu eru þær samofnar menningu þjóðarinnar. Og það er viss rómantískur blær yfir sjávarútveginum. Þess vegna er varla annað hægt en að hafa áhuga á þessum málum og hann hef ég svo sannarlega. En einmitt vegna þess hve þessar greinar eru okkur þýðingarmiklar eru þær vandmeðfarnar og margar áskoranir fólgnar í því að stýra þeim. Í þjóðfélaginu eru uppi mjög ólík sjónarmið um þessar greinar, hvaða hlutverki þær gegna og hverju þær eigi að skila til samfélagsins. Það er hlutverk stjórnmálanna að reyna að skilja og sætta ólík sjónarmið. Ég tek því hlutverkið alvarlega og af miklum áhuga.“

 

Getum við enn talað um sjávarútveg sem burðargrein í íslensku atvinnulífi?

„Í gegnum tíðina hafa Íslendingar að langmestu leyti byggt afkomu sína á sjósókn og sjávarútvegurinn er svo sannarlega burðargrein í íslensku samfélagi enn í dag. Við höfum hins vegar horft upp á miklar breytingar í íslensku

atvinnulífi á undanförnum árum. Hlutfallslegt vægi sjávarútvegsins er ekki það sama og það var. Um miðja síðustu öld voru sjávarafurðir um það bil 90% af heildarútflutningi þjóðarinnar. Þessi mynd er gjörbreytt í dag. En það eru aðrar greinar sem eru að vaxa. Sjávarútvegurinn er eftir sem áður sterkur. Það er gríðarlega jákvætt að atvinnulífið sé orðið fjölbreyttara og stoðirnar fleiri. Það er reyndar mjög athyglisvert að sjávarútvegurinn er í algjörum sérflokki að því er varðar arðsemi og framleiðni. Þetta var meðal þess sem fram kom í McKinsey skýrslunni um árið.

Sjávarútvegurinn er með öðrum orðum fyrirmyndaratvinnugrein í þessu tilliti. Sterk atvinnugrein sem skilar miklum tekjum til samfélagsins. Svo má ekki gleyma því að í kringum sjávarútveginn hafa á undanförnum árum sprottið upp fyrirtæki sem byggja á þekkingu og hugviti, framsækin fyrirtæki sem t.d. framleiða hágæða tækjabúnað fyrir fiskvinnslu og fyrirtæki sem vinna margs konar verðmæti úr sjávarafurðum sem ekki voru nýtt áður fyrr. Verðmætasköpunin er því meiri en nokkru sinni fyrr. Sjávarútvegurinn er orðin þekkingariðnaður og getur af sér mikla sprotastarfsemi sem ella hefði ekki litið dagsins ljós. Ef við höfum þetta í huga þá held ég að það sé yfir allan vafa hafið að sjávarútvegurinn sé ótvíræð burðargrein í íslensku atvinnulífi.“

 

Samþjöppun í greininni hefur verið mikil á undanförnum árum – sérðu fyrir þér að sú þróun haldi áfram?

„Samþjöppun helst í hendur við hagkvæmni upp að vissu marki. Við höfum byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi hér á Íslandi sem ýtir undir hagræðingu og er til þess fallið að auka arðsemi greinarinnar. Fyrirtæki í góðum rekstri dafna og stækka. Í þessu ljósi hefur samþjöppunin komið sér vel fyrir þjóðarbúið og fyrir skattgreiðendur. Á árum áður þurftu stjórnvöld gjarnan að styðja við bakið á sjávarútveginum þegar illa áraði, t.d. með gengisfellingum. Í dag eru fyrirtækin almennt sterkari og hafa meiri burði til þess að stíga ölduna. Hins vegar hljóta því að vera takmörk sett hve mikil samþjöppun er æskileg. Reyndin er sú að í lögum eru takmörk fyrir því hvað einstakir aðilar mega halda um stóran hluta aflaheimilda. Og það verður ekki kvikað frá þeirri stefnu. Markmiðin með lögum um stjórn fiskveiða eru fleiri en einber hagkvæmni. Kerfið á að sjálfsögðu að byggja á sjónarmiðum um sjálfbæra nýtingu en það á jafnframt að stuðla að byggð og traustri atvinnu um landið allt. Ég vil líka leggja áherslu á sanngirni og réttlæti. Samþjöppun getur stangast á við slík sjónarmið. Við verðum alltaf að gæta þess að það ríki jafnvægi á milli hagkvæmnisjónarmiða og annarra sjónarmiða.“

 

Er í íslenskum sjávarútvegi og umræðu um greinina of mikið einblínt á kerfi og veiðar umfram það sem kannski skiptir enn meira máli, þ.e. markaðsmálin og sölu afurða?

„Við höfum náð miklum árangri í veiðum og vinnslu. Eins og ég gat um áðan þá er íslenskur sjávarútvegur arðbær atvinnugrein sem byggir á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þetta er nokkuð sem við getum verið stolt af. Auðvitað hefur líka verið unnið mjög gott starf í markaðssetningu. Íslensk fyrirtæki selja ferska hágæða vöru inn á markaði þar sem gerðar eru miklar kröfur. En það er líklega alveg rétt að við getum gert betur í þessum efnum. Kannski hafa langvarandi deilur um kvótakerfið og auðlindagjöld sett strik í reikninginn og gert það að verkum að athyglin hefur fyrst og fremst beinst að þessum átökum. Ég veit hins vegar að það er mikill vilji til þess að setja kraft í markaðsstarfið. Ísland hefur jákvæða ímynd sem er jafnan tengd við hreinleika og óspillta náttúru. Við eigum að einsetja okkur að nýta þessa ímynd sem best og höfða til kröfuhörðustu neytendanna sem eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir framúrskarandi vöru. Ég tel að einn liður í þessari vinnu snúi inn á við, þ.e.a.s. að því að byggja upp sterkari vitund um íslenska matvælamenningu í samfélaginu. Í stað þess að selja bara fisk sem kemur úr sjónum getum við boðið upp á matvöru sem hefur sterka og raunverulega skírskotun í söguna og menninguna. Nokkurs konar upplifun af íslenskum veruleika. Við ætlum á næstu vikum að hrinda af stað verkefni sem hefur einmitt þetta markmið; að leiða saman íslenska matvælaframleiðendur og hagsmunaaðila úr öðrum greinum, svo sem ferðaþjónustu og menningargeiranum. Hugmyndin er að efla vitund um matarmenningu og styrkja ímynd íslenskrar matvælaframleiðslu. Ég er sannfærð um að markaðssetning íslenskra sjávarafurða gæti notið góðs af slíku.“

 

Sjávarútvegur skiptir miklu varðandi þróun í losun gróðurhúsalofttegunda. Hyggst þú beita þér fyrir aðgerðum sem geti dregið úr henni í greininni?

„Já, ég legg mikla áherslu á góða umgengni við náttúruna bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að sporna gegn hlýnun jarðar. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að minnka kolefnislosun verulega frá því sem var árið 1990 og til þess að ná því markmiði verðum við öll að leggja okkar af mörkum. Þróunin í sjávarútveginum hefur reyndar verið mjög jákvæð. Á síðustu 25 árum eða svo hefur losun frá sjávarútvegi dregist saman um meira en 40%. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja hefur t.d. haft sitt að segja en líka meiri skilvirkni fiskiskipaflotans. En það má gera betur. Til að mynda hafa væntingar um aukna notkun lífeldsneytis ekki gengið eftir enn sem komið er. Ég bind líka vonir við að þróun veiðarfæra geti haft í för með sér enn meiri samdrátt í kolefnislosun. Togveiðar eru t.d. ákaflega orkufrekar og ný tækni gæti leitt til mikils eldsneytissparnaðar. Þessi umhverfissjónarmið eru markmið í sjálfum sér. En það verður líka æ mikilvægara í markaðsstarfi að geta sýnt fram á umhverfisvænar veiðar og framleiðslu. Þannig að það eru margvíslegir hagsmunir í húfi. Ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því að greinin í heild muni halda áfram að draga úr kolefnislosun eins og kostur er.“

 

Endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins Mun þessi ríkisstjórn koma á langtímasamningum við útgerðir um aflaheimildir? Getur slíkt farið saman með aukinni markaðsvæðingu, líkt og Viðreisn hefur talað um?

„Í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að endurskoða skuli núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þar er sérstaklega vikið bæði að langtímasamningum og markaðstengdri gjaldtöku, sem gæti t.d. falist í uppboðsleið. Þetta tvennt er fullkomlega samrýmanlegt. Bæði uppboð og samningar eru mikilvægur hluti af markaðshagkerfi. Það sem mestu máli skiptir er að rekstrarumhverfi útgerðarinnar verði fyrirsjáanlegt og hagfellt á sama tíma og þjóðin njóti sanngjarns arðs af sameiginlegri auðlind. Ég trúi því að einhvers konar markaðsleið sé vænlegust til þess að ná þessum markmiðum. Gjaldtaka fyrir afnot af auðlindinni færi þá eftir markaðsaðstæðum hverju sinni, hún yrði í réttu hlutfalli við getu útgerðarinnar til þess að standa undir henni. Innan skamms mun taka til starfa nefnd sem hefur það verkefni að setja fram tillögur um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og gjaldtöku fyrir aflaheimildir. Hún mun hafa breiða pólitíska skírskotun, horfa til ólíkra sjónarmiða og styðjast við bestu sérfræðiráðgjöf sem völ er á. En eins og ég segi þá er þessi vinna að fara í gang og við skulum sjá hvaða niðurstöður hún færir okkur.“

 

Eru einhverjar sérstakar áherslur sem þú hefur sem ráðherra hvað varðar breytingar í greininni?

„Ég vil fyrst og fremst stefna að því markmiði að það skapist varanleg sátt um sjávarútveginn. Hann hefur verið bitbein í íslensku samfélagi alltof lengi. Atvinnugreinin getur ekki búið við það til langframa að um hana sé deilt jafn hart og verið hefur. Ef það á að skapast starfsumhverfi fyrir sjávarútveginn sem einkennist af raunverulegum

stöðugleika og gerir útgerðarfélögum kleift að gera fyrirsjáanlegar langtímaáætlanir, þá verður að ríkja samfélagsleg sátt um greinina. Þessi sátt næst ekki nema hún byggi á sanngirni. Þess vegna segi ég að þjóðin verði að njóta sanngjarns arðs af auðlindinni sem við eigum öll í sameiningu. En að sama skapi verður sjávarútvegur að vera arðbær atvinnugrein fyrir þá sem hana stunda og taka áhættu með því að fjárfesta í henni. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að skapa þá sátt sem gerir greininni kleift að dafna og skapa verðmæti. Í mínum huga er þessi sátt nauðsynleg forsenda þess að sjávarútvegurinn verði þessi öfluga atvinnugrein til framtíðar. Við verðum að nálgast þetta verkefni af ákveðinni auðmýkt. Þegar hart er deilt þarf fólk að leitast við að skilja sjónarmið annarra og bera virðingu fyrir ólíkum hagsmunum. Hagsmunirnir og sjónarmiðin eru vissulega margslungin í þessu máli. En við verður alltaf verr sett ef við leggjum árar í bát og þorum ekki að takast á við áskorunina. Kannski er það lykillinn að sáttinni: að þora að sættast.“

 

 

 

 

 

 

Deila: