Ný nefnd um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og auðlindagjaldinu

Deila:

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsog landbúnaðarráðherra segir í viðtalið í blaðinu Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem Athygli ehf. gaf út á föstudag, að innan skamms verði skipuð nefnd sem fái það hlutverk að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindagjöldin. Sjávarútvegurinn hafi verið bitbein alltof lengi í þjóðfélagsumræðunni og tímabært sé að ná sáttum.

 

Gjaldtakan verði í takti við markaðsaðstæður hverju sinni

„Í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að endurskoða skuli núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þar er sérstaklega vikið bæði að langtímasamningum og markaðstengdri gjaldtöku, sem gæti t.d. falist í uppboðsleið. Þetta tvennt er fullkomlega samrýmanlegt. Bæði uppboð og samningar eru mikilvægur hluti af markaðshagkerfi. Það sem mestu máli skiptir er að rekstrarumhverfi útgerðarinnar verði fyrirsjáanlegt og hagfellt á sama tíma og þjóðin njóti sanngjarns arðs af sameiginlegri auðlind. Ég trúi því að einhvers konar markaðsleið sé vænlegust til þess að ná þessum markmiðum. Gjaldtaka fyrir afnot af auðlindinni færi þá eftir markaðsaðstæðum hverju sinni, hún yrði í réttu hlutfalli við getu útgerðarinnar til þess að standa undir henni. Innan skamms mun taka til starfa nefnd sem hefur það verkefni að setja fram tillögur um endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og gjaldtöku fyrir aflaheimildir. Hún mun hafa breiða pólitíska skírskotun, horfa til ólíkra sjónarmiða og styðjast við bestu sérfræðiráðgjöf sem völ er á. En eins og ég segi þá er þessi vinna að fara í gang og við skulum sjá hvaða niðurstöður hún færir okkur,“ segir Þorgerður í viðtalinu og svarar því aðspurð að hún vilji sem ráðherra stefna að varanlegri sátt um greinina. Sjávarútvegurinn hafi verið bitbein alltof lengi.

 

Verr sett ef við leggjum árar í bát

„Atvinnugreinin getur ekki búið við það til langframa að um hana sé deilt jafn hart og verið hefur. Ef það á að skapast starfsumhverfi fyrir sjávarútveginn sem einkennist af raunverulegum stöðugleika og gerir útgerðarfélögum kleift að gera fyrirsjáanlegar langtímaáætlanir, þá verður að ríkja samfélagsleg sátt um greinina. Þessi sátt næst ekki nema hún byggi á sanngirni. Þess vegna segi ég að þjóðin verði að njóta sanngjarns arðs af auðlindinni sem við eigum öll í sameiningu. En að sama skapi verður sjávarútvegur að vera arðbær atvinnugrein fyrir þá sem hana stunda og taka áhættu með því að fjárfesta í henni. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að skapa þá sátt sem gerir greininni kleift að dafna og skapa verðmæti. Í mínum huga er þessi sátt nauðsynleg forsenda þess að sjávarútvegurinn verði þessi öfluga atvinnugrein til framtíðar. Við verðum að nálgast þetta verkefni af ákveðinni auðmýkt. Þegar hart er deilt þarf fólk að leitast við að skilja sjónarmið annarra og bera virðingu fyrir ólíkum hagsmunum. Hagsmunirnir og sjónarmiðin eru vissulega margslungin í þessu máli. En við verður alltaf verr sett ef við leggjum árar í bát og þorum ekki að takast á við áskorunina. Kannski er það lykillinn að sáttinni: að þora að sættast,“ segir Þorgerður í viðtalinu.
Viðtalið í heild má lesa hér á síðunni undir flipanum Nýjustu viðtöl og greinar.

 

 

 

 

 

 

Deila: