Hrein virðiskeðja sjávarútvegs

Deila:

Erindi sem Svavar Svavarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar HB Granda hélt á Umhverfisdegi Samtaka atvinnulífsins fyrir skömmu vakti töluverða athygli en í erindinu fjallaði Svavar um hvernig HB Grandi hefur tekið á loftslagsmálum félagsins og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í máli Svavars kom fram að HB Grandi hefur í því skyni að ná enn frekari árangri tekið í notkun umhverfisstjórnunarkerfi sem þróað hefur verið í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Klappir. Þetta samstarfsverkefni nefnist Hrein virðiskeðja sjávarútvegs og snýr gagngert að umhverfis- og aðfangastjórnun félagsins.

Mælaborð umhverfisupplýsinga

Að sögn Svavars hófst þetta verkefni árið 2015 og hann segir það vera á því stigi nú að verið sé að þróa nokkurs konar mælaborð fyrir alla umhverfisþætti sem snúa að starfsemi félagsins.

,,Þetta mælaborð felur í sér hvort tveggja rekstrarlegan og umhverfislegan ávinning. Þannig er ætlunin að starfsfólk okkar geti fylgst með notkun á olíu, rafmagni, heitu og köldu vatni, flokkun sorps og fleiri slíkum umhverfisþáttum til sjós og lands í rauntíma og yfir lengra tímabil.“

Öll starfsemi HB Granda losaði samtals um 65 þúsund tonn kolefnisígilda árið 2016, en hún hafði þá dregist saman um 5% frá árinu á undan. 95% af losuninni árið 2016 má rekja til eldneytisnotkunar fiskiskipanna. Athygli vekur að losunartölur fyrir úrgang eru hlutfallslega mjög lágar í kolefnisígildum talið en HB Grandi flokkar allt sitt sorp frá sjó og landi.

Sameining útgerða dregur úr losun

,,Hvað varðar olíunotkun skipa HB Granda þá hefur hún minnkað verulega í kjölfar sameininga við fjölmargar útgerðir allt frá árinu 1985. Hagræðingin hefur m.a. falist í því að á annan tug skipa hefur verið tekinn úr rekstri. HB Grandi gerir nú út sama fjölda skipa, níu skip, og Grandi gerði árið 1985, þrátt fyrir allar sameiningar við önnur félög eftir sameiningu BÚR og Ísbjarnarins. Þessar sameiningar hafa falið í sér að veiðiheimildir félagsins hafa nánast þrefaldast þótt skipunum hafi ekki fjölgað.
Sambærileg þróun hefur átt sér stað meðal annarra sjávarútvegsfyrirtækja um land allt,“ segir Svavar en í máli hans kemur fram að dregið hafi úr olíunotkun íslenskra fiskiskipa um 33% á tímabilinu 1990-2014.

Svavar segir að góður árangur Íslendinga hvað varðar fiskveiðar, sem ekki hvað síst sé að þakka ábyrgri nýtingu á fiskstofnunum, eigi einnig sinn þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

,,Með markvissri hagræðingu og réttum hvötum hefur tekist vel til. Bæði hvað varðar nýja þekkingu og færni við veiðar en einnig framþróun í fiskileit, þróun veiðarfæra, veiðitækni, meðhöndlun afla um borð o.s.frv. Af þessum sökum og öðrum hefur afli á sóknareiningu nær þrefaldast á tímabilinu svo dæmi sé tekið.“

Ný og afkastameiri skip draga enn frekar úr losun

,,Nú stendur yfir endurnýjun á skipaflota HB Granda. Nýi flotinn mun samanstanda af færri og afkastameiri skipum sem jafnframt munu nýta eldsneytið betur en þau eldri. Þessi nýju skip munu ekki brenna svartolíu enda hefur notkun svartolíu alfarið verið hætt hjá félaginu. Þar að auki eru skipin að prófa sig áfram með sérstakan mengunarvarnarbúnað til að lágmarka losun sína enn frekar. Með þessum nýja skipaflota sjáum við fram á að ná enn frekari samdrætti í losun á næstu árum og getum jafnframt boðið mun öruggara og betra starfsumhverfi fyrir sjómennina okkar.“

Flokkun sorps

Svavar segir að litið sé á allan sorpúrgang frá skipum sem áhættuþátt fyrir umhverfið.

,,Þess vegna koma skip okkar með allt sorp grófflokkað að landi og skila til sorpflokkunarstöðva félagins. Á þrem árum hefur tekist mjög vel að auka hlutfall flokkaðs og endurvinnanlegs sorps hjá félaginu. Árið 2016 var 58% sorps frá almennum rekstri flokkað og 37% árið áður.“

Rafmagn í stað olíu

Að sögn Svavars er mjög mikilvægt að skipin tengist rafmagni frá landi þegar þau eru í höfn og stefnan sé að auka notkun rafmagns í höfn í stað olíu og nota hitaveituvatn til hitunar um borð í stað rafmagns þegar því verður við komið.

,,Þá hefur fiskmjölsverksmiðja félagins á Vopnafirði gengið að langstærstum hluta fyrir rafmagni undanfarin sjö ár í stað olíu. Á Akranesi er dagverksmiðjan keyrð á rafmagni en stefnan er að stóra vertíðarverksmiðjan þar verði einnig rafknúin í framtíðinni,“ segir Svavar Svavarsson.

Deila: