Þorskur í kókos-karrí og íslensku rótargrænmeti

Deila:

Nú veiðist þorskurinn í hvaða veiðarfæri sem er, enda mikil þorskgengd á öllum miðum, en þó mest á hrygningarstöðvunum við sunnan- og vestanvert landið. Það er því vel við hæfi að gera góða veislu og gæða sér þorski á vertíðinni. Þessa uppskrift fengum við á vefsíðunni fiskurimatinn.is sem Norðanfiskur heldur úti, en fyrirtækið setti nýlega á markað ferskan gæðafisk í neytendaumbúðum, sem tilbúinn er til eldunar. Okkur líst vel á framtakið og þessi uppskrift er virkilega flott. Góð kvöldmáltíð fyrir fólk sem vill gera vel við sig með hollum og góðum mat. Við mælum með þessari uppskrift sem er fyrir fjóra.

Innihald:

  • 800 g þorskur
  • 300 ml kókosrjómi
  • 1 tsk karrí
  • ½ teningur grænmetiskraftur
  • ½ laukur, sneiddur
  • ½ grænt epli
  • 2 gulrætur, rifnar
  • 1 rófa rifin (ekki of stór)
  • 5 kartöflur, sneiddar þunnt
  • 2 lúkur grænkál, saxað
  • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 2 bollar rifinn ostur
  • Salt og pipar

Aðferð:

Skerið fiskinn í bita og setjið í eldfast form og saltið og piprið yfir. Setjið kókosrjómann, karrí, lauk og epli saman í pott og látið malla í ca. 7 mín. Maukið síðan saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél, smakkist til með salti og pipar. Skerið grænmetið og steikið á pönnu. Hellið grænmetinu út í sósuna og blandið saman, hellið yfir fiskinn og dreifið ostinum yfir. Eldið í ca. 18–20 mín í 180°C heitum ofni. Borið fram með hrísgrjónum og naan brauði.

 

Deila: