Tveir bitar í möndlusósu

Deila:

Saltfiskur er veislumatur hjá Spánverjum. Hann er „jólasteikin“ þeirra og því við hæfi að bjóða uppskrift að saltfiski nú fyrir hátíðirnar, en til að fara milliveginn er uppskriftin bæði fiskur og kjör. Þessi óvenjulega uppskrift er fengin úr uppskriftabókinni Suðrænir saltfiskréttir, sem Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda gaf út í tilefni 60 ára afmælis sambandsins 1992. Uppskriftin miðast við fjóra.

Innihald:

4 saltfiskbitar af hnakkastykkinu, hver um 90 g
4 fremur þykkir bitar af svínalundum
2 blaðlaukar
1 glas af þurru freyðivíni
1 dl rjómi
60 g möndlur án hýðis, óristaðar
hveiti
olía
salt

Aðferðin:
útvatnið saltfiskinn, þerrið bitana, veltið þeim upp úr hveiti og steikið í vel heitri olíu, við meðalhita, þar til fiskurinn verður fallega gullinn að lit. Geymið í lágum, víðum potti eða pönnu með þykkum botni.
Saltið svínalundirnar lítillega, veltið þeim upp úr hveiti og látið hitna skamma stund á pönnunni án þess að þær taki of mikinn lit. Geymið með saltfiskinum.
Hreinsið blaðlaukinn, skerið græna hlutann af og skerið ljósa hlutann í nokkuð þykkar sneiðar. Saxið möndlurnar smátt.
Látið blaðlaukinn krauma í olíu við meðalhita. Bætið möndlunum útí þegar laukurinn tekur að mýkjast, og lækkið hitann. Látið malla þar til laukurinn er orðinn glær og möndlurnar gullnar að lit.
Hellið freyðivíninu yfir, látið sjóða niður við nokkuð háan hita og bætið síðan rjómanum út í. Lækkið hitann og látið malla um stund. Blandið sósuna í kvörn/mixara og síið þannig að hún verði kremkennd og slétt.
Hellið sósunni yfir fisk- og kjötbitana og hitið við mjög lágan straum í nokkrar mínútur. Berið réttinn strax fram, vel heitan.

 

Deila: