Allt að 200 strandveiðibátar á sjó í gær

Deila:

AStjórnstöð Landhelgisgæslunnar telur að vel á annað hundrað strandveiðibáta hafi verið á sjó í gær, á fyrsta degi strandveiðitímabilsins 2017. Heildarfjöldi skipa á Íslandsmiðum um hádegisbilið var um 340 en þegar erlend skip og ýmis línu- og togskip hafa verið verið dregin frá má gera ráð fyrir að hátt í 150 strandveiðibátar hafi verið á sjó. Þeir voru nærri tvö hundruð þegar mest lét í gærmorgun.

Sóknin var einna mest við norðvestanvert landið, frá Vestfjörum og út af Ströndum, allt til Eyjafjarðar. Þá voru allmargir bátar að veiðum út af sunnanverðum Austfjörðum og Hornafirði. Leiðindaveður suðvestanlands þýddi að færri bátar voru þar að veiðum

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist grannt með sókn strandveiðibáta næstu vikur og mánuði. Þá mun Landhelgisgæslan sinna virku eftirliti af sjó og úr lofti allt strandveiðitímabilið.

Alls höfðu í gær 374 bátar virkjað leyfi til veiða. Í fyrra stunduðu 413 bátar strandveiðar.  Eins og undanfarin ár eru flestir bátarnir á svæði A (Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur) alls 176.

Deila: