Samherji kaupir verksmiðju af Seachill

Deila:

Samherji hefur gert samkomulag um kaup á verksmiðju fyrir tilbúna fiskrétti af dótturfyrirtæki Icelandic Group, Seachill, í Grimsby í Bretlandi. Framtakssjóður Íslands er eigandi Icelandic Group og hefur hann auk þess hafið söluferli á Seachill og dótturfyrirtæki þess The Saucy Fish Co. Seachill hefur á undanförnum árum meðal annars framleitt fiskafurðir fyrir stórmarkaðskeðjuna Tesco.

Frá þessu er sagt á fréttavefnum undercurrenrnews.com. Kaupin á verksmiðjunni eru gerð í gegnum dótturfélag Samherja í Bretlandi, Seagold, sem er að færa út kvíarnar. Vitnað er í yfirlýsingu frá Seachill þar sem ítrekað er að þessi sala sé aðskilin frá söluferli fyrirtækisins alls. Salan nú snýst um eignir og verður starfsemin sem í húsinu er, færð yfir í aðra starfsemi hjá Seachill.

Verksmiðjan sem Samherji kaupir nú var áður notuð til að framleiða tilbúna fiskrétti fyrir Marks and Spencer, en henni var hætt árið 2014. Hún var síðan nýtt til framleiðslu á rækjukokteilum, sósum og fiskikökum, en þessi starfsemi verður flutt í aðra verksmiðju Seachill.

Forstjóri Seachill Simon Smith, segir það ánægjulegt að með sölunni sé verið að skapa ný störf og hafi félögin unnið saman að viðskiptunum með opinberum aðilum til að koma þessum heim og saman.

Gústaf Baldvinsson forstjóri Seagold og sölu- og markaðsstjóri Samherja segir að þessi kaup gefi þeim rúm til að auka núverandi starfsemi og styrkja geymslu og dreifingarkerfi samstæðunnar í Bretlandi. Samherji rekur þegar verksmiðju í Grimsby, Ice Fresh Seafood, en þarf möguleika til að stækka eins og nú er gert.

Núverandi starfsemi sé að sprengja húsnæðið utan af sér. Planið sé að færa til starfsemi og nýta betri aðstæður til geymslu og dreifingar til að lækka kostnað og gefa fyrirtækinu sveigjanleika til að vaxa inn á nýja vænlega markaði. Hugmyndin er að framleiða ferska og kældar afurðir í nýju verksmiðjunni.

Deila: