Tíminn og áhorfandinn

Deila:

„Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp um myndavélaeftirlit með sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði á landi og sjó. Engin greining hefur farið fram á þörf fyrir lagasetningu þessa. Þó kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að því hafi verið „ … haldið fram að brottkast eigi sér stað í einhverjum mæli á Íslandsmiðum þó niðurstöður rannsókna sýni að það sé ekki í miklu mæli.“ Grundvöllur lagasetningar virðist sem sagt almannarómur. En látum liggja milli hluta hvað rekur ráðherra áfram í þessu máli, en beinum sjónum að eftirlitinu og gaumgæfum nokkrar tölur, okkur til skemmtunar og fróðleiks.“  Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

Einn togari

Tökum dæmi af frystitogara sem er 30 daga á veiðum og vinnur aflann um borð. Þar er unnið á vöktum allan sólarhringinn. Hver sólarhringur er 24 tímar og því er starfsemi í gangi í 720 klukkustundir þann tíma sem skipið er á sjó. Það er því æði mikið myndefni sem safnast í veiðiferðinni. Höfum í huga að í þessu dæmi er eingöngu miðað við að ein myndavél sé í gangi. Fleiri myndavélar munu auka við myndefnið og fjölga uppteknum klukkustundum.

Einhver þarf að horfa

Það þarf einhver að fara yfir myndefnið. Gerum ráð fyrir að venjulegur mánuður í lífi vinnandi manns telji 160 klukkustundir í vinnu. Að því gefnu þyrfti starfsmaður (væntanlega Fiskistofu) að sitja við skjáinn í 4 mánuði og 15 daga, bara til þess að yfirfara þessa einu veiðiferð. Það er frekar tilbreytingarlaus vinna, en á móti kemur að hann losnar væntanlega við að fara á sjóinn og fylgjast með því í rauntíma sem er að gerast um borð. Við myndavélaeftirlit sparar útgerðin sér væntanlega kostnað vegna eftirlitsmanns um borð, en þeir eru vel haldnir. Komið hefur fyrir að eftirlitsmaður um borð sé sá sem kostað hefur útgerðina næst mest, á eftir skipstjóra.

7200 klukkustundir

Frystiskip er mun lengur á sjó á einu ári en 30 daga. Framlengjum nú dæmið og gefum okkur að kvótastaða skipsins sé góð. Skipið getur þá hæglega verið 300 daga við veiðar og vinnslu. Nú fer skörin að færast upp í bekkinn, allt er orðið tífalt lengra og meira. Klukkustundirnar sem hinn opinberi starfsmaður þarf að sitja límdur við skjáinn eru orðnar 7200. Sitji hann við í átta tíma á dag (látum matar og kaffitíma liggja milli hluta) verður hann 45 mánuði að horfa á allt efnið úr veiðiferðum viðkomandi skips, eða 3 ár og 274 daga. Hugsanlega mætti hraðspóla yfir hluta efnisins, án þess þó að það komi niður á gæðum eftirlitsins.

Fleiri áhorfendur

Það gæti myndast hali af óyfirförnu efni. Nema náttúrulega Fiskistofa krefjist þess að fá meira fé og ráða fleiri „áhorfendur“ til að yfirfara upptökurnar.  Því ef ekki á að fara yfir þær, til hvers ætti þá að vera að taka upp veiðar og vinnslu. Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 en góðu tíðindin eru þau að þeim hafði fækkað um 26 frá því árinu á undan. Togarar voru 44.

Deila: