Þúfan fékk fegrunarviðurkenningu

Deila:

Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar árið 2017 hafa verið veittar við hátíðlega athöfn í Höfða. Alls voru veittar fimm viðurkenningar fyrir hús, lóðir og sumargötu.  Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti viðurkenningarnar.

Þúfan á Norðurgarði fékk viðurkenningu fyrir athyglisvert og listrænt almenningsrými á svæði sem auðgar mannlífið og gefur nýtt sjónarhorn á borgarmyndina. Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda og Ólöf Nordal listakona tóku við viðurkenningunni.

Verkið Þúfa er eftir listakonuna Ólöfu Nordal. Þúfa er manngert átta metra grasivaxið fjall sem hægt er að ganga upp á eftir þar til gerðum stíg. Á toppnum trónir fiskihjallur þar sem þurrkaður er fiskur. Þúfa er brú á milli náttúru og borgar. Verkinu er ætlað að virka bæði í nálægð og fjarlægð og sést það víða að í borginni. Þeir sem ganga upp á toppinn fá að njóta eins tilkomumesta útsýnis yfir Reykjavík sem völ er á. Verkið virkjar öll skilningarvitin og hefur yfir sér hlýju og kunnugleika. Formgerð Þúfunnar er ónáttúruleg enda manngert fjall á manngerðu landi. Þúfa var vígð við hátíðlega athöfn þann 21. desember 2013.

Deila: