Mestu af grásleppu landað í Stykkishólmi

Deila:

Aukinn fjöldi veiðidaga á grásleppu á nýlokinni vertíð skilaði ekki aukningu í afla á milli ára. Veiði á dag dróst saman, en verð á hrognunum er hærra nú en í fyrra. Farið er yfir vertíðina í færslu á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda:

„Grásleppuvertíðinni lauk 14. ágúst þegar bátar í innanverðum Breiðafirði drógu upp.  Vertíðin var óvenjulöng að þessu sinni alls 46 samfelldir dagar sem hver bátur mátti vera að, en undanfarin fjögur ár hafa dagar verið 32.

Fjölgun veiðidaga leiddi þó ekki til aukningar afla milli ára.  Alls veiddust  4.542 tonn af heilli grásleppu, sem jafngildir milli 8.600 og 8.700 tunnum af hrognum.  Veiðin á árinu 2016 skilaði 5.425 tonnum þannig að samdrátturinn varð um 16%.

Eftir að veiði á hvern dag hafði aukist 5 ár í röð, brá nú svo við að hún minnkaði um rúman þriðjung.  Fara þarf til vertíðarinnar 2012 til að finna lakari veiði á hvern úthaldsdag heldur en á síðustu vertíð.

Þátttaka í veiðunum var framar vonum, þar sem í upphafi vertíðar leit út fyrir að fáir ætluðu til veiða.  Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaupendur buðu.  Samstaðan skilaði sér, verð hækkaði og bátum fjölgaði á miðunum.

Alls stunduðu 250 bátar grásleppuveiðar á síðustu vertíð sem eru 5 fleiri en á árinu 2016.  Munar þar mestu um mikla fjölgun í innanverðum Breiðafirði, en á B-svæðinu öllu fjölgaði um 22 báta milli ára.

Veiði á vertíðinni var víðast hvar lakari en í fyrra.  Mestu sveiflurnar voru á veiðisvæði D, þar náði veiðin ekki helming þess sem hún var í fyrra.  Á svæði B jókst hún hins vegar um 82%.

Af einstaka höfnum var langmestu landað í Stykkishólmi 919 tonnum.

Bakkafjörður var næstur í röðinni 294 tonn og á Drangsnesi 290 tonn sem var aðeins tæpur helmingur þess sem þar var landað í fyrra.

LS hefur ávallt brýnt fyrir grásleppukörlum að veiða ekki umfram það sem þeir hafa markað fyrir.  Er það gert til að koma í veg fyrir offramboð og verðfall.  Á vertíðinni 2016 var eftirspurn eftir hrognum meiri en framboð.  Það leiddi til verulegrar hækkunar á nokkrum hundruðum tunna af hrognum á síðustu mánuðum ársins.

Í upphafi síðustu vertíðar voru því öll skilyrði fyrir hendi til verulegrar verðhækkunar.  Það kom því sjómönnum í opna skjöldu þegar framleiðendur boðuðu verðlækkun.  Þeir létu eins og áður er fram komið óánægju sína í ljósi með því að sýna veiðunum lítinn áhuga, enda ekki grundvöllur að hefja þær á því verði sem í boði var.

Þegar þetta er ritað bendir allt til þess að framleiðendur hafi náð verðhækkun á grásleppukavíar.

Grásleppan er ein fárra fisktegunda sem skilar hærra verði til sjómanna í ár en í fyrra.“

 

 

Deila: