HB Grandi á umhverfisdegi atvinnulífsins 2017
Svavar Svavarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar HB Granda, hélt erindi á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem var í ár helgaður loftslagsmálum. Erindið fjallaði um verkefnið Hrein virðiskeðja sjávarútvegs, en sagt var frá umhverfisstjórnunarkerfi sem HB Grandi hefur verið með í þróun og tekið í notkun í þeim tilgangi að minnka umhverfisáhrif félagsins.
Svavar talaði um sameiningarsögu HB Granda allt frá árinu 1985 og mikilli fækkun í skipastól félagsins í kjölfarið, þrátt fyrir nánast þreföldun veiðiheimilda. Endurnýjun skipaflota HB Granda er yfirstandandi með afkastameiri og sparneytnari skipum. Einnig hafa mikilvægir þættir eins og sterkari fiskstofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða á undanförnum áratugum leitt til 33% minnkunar í olíunotkun við veiðar íslenska skipaflotans.
Svavar lagði sérstaka áherslu á að markviss stefna stjórnvalda í málefnum sjávarútvegs og áframhaldandi gróska og nýsköpun í greininni séu þeir áhrifaþættir sem best tryggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði náð.
Aðrir mælendur ræddu um hvað þeirra fyrirtæki eru að gera til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Þeir mælendur voru Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, Erna Eiríksdóttir, forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Eimskip og Hrefna Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Elkem Ísland. Sérstakur gestur fundarins var Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Í framhaldi voru málstofur um ábyrgar fjárfestingar, nýsköpun og loftlagsmál og orkuskipti og orkunýtingu.