Dragnótamenn fagna opnun veiðisvæða

Deila:

Samtök dragnótamanna fagna opnun veiðisvæða fyrir dragnót á norðanverðu landinu. Þeir segja að ekkert samráð hafi verið haft við dragnótamenn þegar ákveðið var að loka fjórum veiðisvæðum fyrir dragnótaveiði árið 2010. Þeir taka fram að ekkert veiðarfæri sé jafnháð botnlagi og dragnótin og því sé aðeins hægt að brúka hana til veiða á takmörkuðum svæðum á grunnslóð samkvæmt frétt á ruv.is

Veiðisvæðin fjögur sem um ræðir eru úti fyrir Ströndum, Norðurlandi, Norðausturlandi og Austfjörðum. Ákvörðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra, um að leyfa dragnótaveiðar þar eftir sjö ára bann hefur verið umdeild. Landssamband smábátaeigenda hefur gagnrýnt hana harðlega og smábátasjómenn í Skagafirði segja að með þessu sé fótunum kippt undan smábátasjómönnum á Hofsósi og Sauðárkróki.

Dragnótamenn segja að engin málefnaleg sjónarmið varðandi umhverfisáhrif veiðanna eða vernd lífríkis hafi verið fyrir því að banna dragnótaveiðar.

Starfshópur um endurskoðun á reglum um veiðar og verndun komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið fiskfræðileg rökfyrir því að banna dragnótaveiðar á svæðunum.

Dragnót eða snurvoð er veiðarfæri til fiskveiða sem var fundið upp í Danmörku árið 1848. Dragnót samanstendur af pokalaga belg úr neti og út frá honum liggja stórir vængir. Frá vængjunum liggja dragstrengir. Dragstrengirnir ýta við fisknum og smala honum í netið. Á Wikipedia kemur fram að dragnót þyki ekki eyðileggja sjávarbotninn eins mikið og þung botntroll geti gert.

 

Deila: