Tugur námskeiða á árinu

Deila:

Í tengslum við gerð nýrrar starfsmannastefnu var unnin ný fræðsluáætlun fyrir Síldarvinnsluna síðasta vetur og var þar vandað til verka. Í starfsmannastefnunni er lögð áhersla á fræðslu, uppbyggingu þekkingar og hæfni starfsmanna og var fræðsluáætlunin unnin í samræmi við ákvæði hennar samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Nefnd starfsmanna kom að gerð áætlunarinnar, framkvæmd var viðhorfskönnun á meðal starfsmanna og fundað með stjórnendum um fræðsluþarfir. Austurbrú stýrði vinnunni við gerð áætlunarinnar og sér um framkvæmd hennar ásamt Hákoni Ernusyni starfsmannastjóra. Áætlunin er til þriggja ára og hófst námskeiðahald þegar á árinu sem nú er að líða.

Á yfirstandandi ári hefur verið efnt til 10 námskeiða og má þar nefna tölvunámskeið, skyndihjálparnámskeið, námskeið um rafmagnsöryggi, fallvarnanámskeið og námskeið í íslensku fyrir erlent starfsfólk. Yfir 100 manns hafa sótt námskeiðin og hefur ríkt mikil ánægja með þau.

Á næstu vikum eru fyrirhuguð eldvarnanámskeið fyrir áhafnir skipa, samskiptanámskeið, gæðastjórnunarnámskeið auk frekari námskeiða sem tengjast öryggismálum. Starfsmenn eru hvattir til að fylgjast með auglýsingum um námskeiðahald og grípa þau tækifæri sem gefast til að fræðast. Vert er að hafa í huga að þekking verður sífellt mikilvægari í fyrirtæki sem ætlar sér að nýta tækni og vera í fremstu röð á sem flestum sviðum.

 

Deila: