Samfelld makrílvinnsla á Neskaupstað

Deila:

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið samfelld makrílvinnsla að undanförnu og hefur makríllinn fengist innan íslenskrar lögsögu. Frá þessu greinir á vef Síldarvinnslunnar. Þar er sagt frá því að Beitir NK hafi komið til hafnar með 1.655 tonn aðfararnótt laugardags en þar á undan hafði Börkur komið með 1.500 tonn.

Fram kemur að meðalstærð makrílsins í Beiti hafi verið vel yfir 500 grömm. Hann hafi ýmist verið heilfrystur, hausskorinn eða flakaður. Á eftir Beiti kom Margrét EA með 1.100 tonn. Í fréttinni segir að vel gangi að vinna aflann og að nú í dag, mánudag, sé Vilhelm Þorsteinsson EA kominn til Neskaupstaðar með 1.445 tonn. Vinnsla úr honum hefst síðdegis.

Í fréttinni segir að þegar búið verður að landa úr Vilhelm séu 7.200 tonn af makríl komin á land í Neskaupstað á vertíðinni, auk einhvers magns af síld.

Deila: