„Say Iceland“ vinnur Hnakkaþonið 2017

Deila:

Brim hf. mun byggja upp eigið vörumerki undir nafninu „Say Iceland“ og selja fullunninn ufsa á nýja markaði á austurströnd Bandaríkjanna, nái tillögur sigurliðs Hnakkaþons HR og SFS, útflutningskeppni sjávarútvegsins 2018 fram að ganga. Úrslit keppninnar voru kynnt í HR um helgina.

Sigurliðið skipa þau: Tinna Brá Sigurðardóttir meistaranemi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði, Sóley Sævarsdóttir Meyer laganemi, Serge Nengali Kumakamba og Yvonne Homoncik skiptinemar í lagadeild og Julia Robin de Niet skiptinemi í tækni- og verkfræðideild. Hópurinn mun heimsækja Seafood Expo North America, stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Í vinningstillögunni, sem nemendurnir unnu frá fimmtudegi til laugardags, er lagt til að lögð verði aukin áherslu á íslensk gæði, sjálfbærni og jafnt framboð allt árið um kring í markaðssetningu á ufsa á Bandaríkjamarkaði. Þróað verði nýtt vörumerki „Say Iceland“, og byggð upp aðstaða til fullvinnslu í Portland í Maine í Bandaríkjunum, þar sem ufsinn verði marineraður, reyktur eða hjúpaður brauðraspi. Sérstök áhersla verði lögð á markaðssetningu á minni einingum fyrir kantínur háskóla, hjúkrunarheimila og vinnustaða. Sem dæmi um stærð þess markaðar benda nemendurnir á að yfir ein milljón nemenda sækir háskóla í New York borg einni. Í framtíðinni er lagt til að aukin áhersla verði lögð á markaðssetningu beint til neytenda.

Í Hnakkaþoninu reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Í áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni þurftu nemendur að finna leiðir til að auka sölu á sjófrystum ufsa til hótela og veitingahúsakeðja í Bandaríkjunum. Verkefnið var þróað með Brimi hf, Icelandic, Eimskip og Samhentum.

Í dómnefnd Hnakkaþons 2018 sátu: Björgólfur Jóhannson forstjóri Icelandair Group, Bylgja Hauksdóttir umboðsaðili North Coast Seafoods Ltd., Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips, Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri tengsla í HR, Karl Már Einarsson útgerðarstjóri Brims og Þorgeir Pálsson aðjúnkt við viðskiptadeild HR.

Margþætt atvinnugrein

„Íslenskur sjávarútvegur er margþætt atvinnugrein sem kallar á mikla þekkingu og sérhæft starfsfólk. Meðal viðfangsefna hans eru fiskveiðar, matvælavinnsla, markaðssetning, nýsköpun og tækniþróun, flutningar, rannsóknir, umhverfismál og margt fleira. Markmið með Hnakkaþoninu er að kynna þau ótalmörgu tækifæri til nýsköpunar og fjölbreyttu störf sem íslenskur sjávarútvegur býður upp á og kalla fram nýjar og frískar hugmyndir frá nemendum HR. Þá er eitt af meginmarkmiðum Hnakkaþonsins að minna nemendur á að arðbærni og góð umgengni um náttúruna verða að fara saman ef atvinnustarfsemi á að vera sjálfbær.

Hnakkaþonið er einnig liður í áherslu Háskólans í Reykjavík á raunhæf verkefni í námi, í samvinnu við íslenskt atvinnulíf,“ segir meðal annars í frétt frá HR um Hnakkaþonið.

Deila: