Vel staðið að vinnuverndarmálum
Samskip ákváðu að taka öryggismál með áherslu á vinnuvernd föstum tökum og réðu til starfa Kristján Th. Friðriksson til að sinna nýju starfi vinnuverndarfulltrúa. Á fyrstu starfsdögum Kristjáns í ágúst síðastliðnum var hafið sértakt átaksverkefni í öryggismálum undir merkjum 4DX. „Það var mjög ánægjulegt að hefja störf og koma beint inn í öryggisstríð þar sem áhersla alls fyrirtækisins var á öryggis- og vinnuverndarmál,“ segir hann í samtali á heimasíðu Samskipa.
Kristján lagði stund á íþrótta- og kennslufræði í Háskólanum í Reykjavík með áherslu á heilsueflingu og hefur svo bætt við sig þekkingu, svo sem meistaranámi í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og diplómanámi í lýðheilsuvísindum frá University of Minnesota úti í Bandaríkjunum, en þar í náminu var komið inn á þætti á borð við forvarnir og vinnuvernd.
Kristján segir starfið bæði fjölbreytt og spennandi og verkefni næg. Meðal verkefna hans hefur til dæmis verið að vinna áhættumat fyrir störf á gámavelli, í vöruhúsi, akstri og víðar. „Þar greinum við helstu áhættuþætti í störfunum og gerum ráðstafanir til að auka öryggi starfanna og draga úr áhættu, eða lækka áhættustig.“
Markmiðið er slysalaus vinnustaður
Kristján segir líka hafa verið mjög gagnlegt að detta beint inn í undirbúning fyrir átakið sem gert var í öryggismálum fyrir áramót, svo sem að hafa fengið tækifæri til að heimsækja starfsstöðvar Samskipa úti á landi með Bergvini Þórðarsyni öryggisstjóra Samskipa og hitta fólkið á hverjum stað. „Við fórum í öryggisúttektir á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Akureyri og víðar og tókum stöðuna áður en 4DX-stríðið hófst.“
Meðal verkefna Kristjáns er einnig að halda utan um slysaskráningu og vinna í fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum til að fylgja eftir öryggisstefnu Samskipa um að Samskip séu slysalaus vinnustaður og að starfsfólk skili sér heilt heim eftir vinnudaginn. Hann segir að starfsfólk hjá Samskipum sé vel meðvitað um mikilvægi þess að huga að örygginu og í þeim efnum hjálpist fólk að. „Á innra netinu erum við með hnapp þar sem hægt er að tilkynna um vinnuslys, næstum því slys og hættulega aðstæður.“ Öryggisnefnd fer svo yfir atvik og tilkynningar og gerir tillögur um úrbætur og fylgir þeim eftir.
Samskipum er annt um starfsfólkið
„Og síðan er vinnuverndin fjölbreytt svið,“ bætir Kristján við. Hún komi til dæmis líka inn á hollustuhætti og vellíðan á vinnustað, auk þess að tryggja að ávallt sé fullnægt kröfum um vinnuvernd og góðan aðbúnað.
Samskip segir Kristján að standi sig vel þegar komi að vinnuverndarmálum. Hann finni það bæði hjá stjórnendum og starfsfólki að á þessi mál sé lögð sérstök áhersla.
„Við höfum til dæmis verið með verkefni eins og að taka út vinnuaðstöðuna hjá fólki. Þá fengum við sjúkraþjálfara til koma og greina vinnuaðstöðuna hjá fólki og stilla hana af til að lágmarka álag á stoðkerfi og bæta líkamsstöðu þess til að fólki líði betur í vinnunni. Síðan erum við að fara af stað með heilsuleika Samskipa á næstu dögum í samstarfi við fyrirtækið Sidekick health þar sem boðið verður upp á nýja og spennandi leikjavædda nálgun við að efla heilsu og vellíðan starfsmanna.