Viðskiptafræðingur og markamaskína

Deila:

Ester Óskarsdóttir er nýútskrifaður viðskiptafræðingur. Hún útskrifaðist með BS-próf í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst á dögunum og starfar á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar. Hún spilar í meistaraflokki ÍBV í handbolta og horfir til átakahelgar: úrslitaleikja í Coca Cola-bikarnum! Rætt er við hana á heimasíðu VSV:

Ester Óskarsdóttir

Bikarinn til Eyja er hið eina sem til greina kemur, að sjálfsögðu. Undanúrslitaleikirnir eru á fimmtudaginn, ÍBV-Fram og Haukar-KA/Þór. Úrslit ráðast á laugardaginn kemur, 10. mars.  Ester er lykilmaður og markahæst leikmanna ÍBV á Íslandsmótinu.

Sambýlismaðurinn, Magnús Stefánsson, framleiðslustjóri Idunn Seafoods ehf., er líka lykilmaður í handboltanum í Eyjum og verður í eldlínunni í sömu úrslitakeppni með meistaraflokki karla.

TVEIR bikarar í boði fyrir Eyjamenn um næstu helgi helgi, takk fyrir!

„Starfsnám“: Bifröst/VSV

Ester stundaði fjarnám á Bifröst, vann með náminu hjá Vinnslustöðinni frá 2015, æfði og keppti í handbolta og sinnti fimm ára dóttur og fjölskyldunni. Það hlýtur að kalla á umtalsverðan sjálfsaga og þrek að koma öllu þessu fyrir á dagskránni mánuð eftir mánuð, ár eftir ár?

„Já, ég neita því ekki að þetta var býsna erfitt á köflum en það hafðist að ljúka prófinu á Bifröst! Ég á marga góða að sem létta undir þegar á þarf að halda og miklu máli skipti að vera með samning við Vinnslustöðina um „starfsnám“, það er að segja að hafa örugga vinnu hér á námstímanum gegn því að starfa hjá fyrirtækinu eitthvað áfram að prófi loknu. Þegar álagið var mikið í náminu gat ég dregið úr vinnu hjá VSV á móti en unnið meira þegar námið bauð upp á það.“

– Hvaða starfstitil hefurðu hjá VSV?

„Því er ekki einfalt að svara. Ég aðstoða Binna framkvæmdastjóra, Sindra, sviðsstjóra uppsjávarsviðs og Sverri, sviðsstjóra bolfiskssviðs, til skiptis eða samtímis í ýmsum verkefnum. Þeir velta mér til og frá eftir því sem tilefni gefast hverju sinni og ég kann því mjög vel að kynnast þannig fjölbreyttum viðfangsefnum!“

– Handboltinn hlýtur að vera ofarlega í huga núna þegar komið er að úrslitarimmu bikarkeppninnar?

„Þú getur nú rétt ímyndað þér … Eyjamenn ætlast beinlínis til þess að við skilum bikarnum í land hér á laugardaginn. Við æfum í tvo tíma á dag að jafnaði og keppnisleikjum fylgja tíð ferðalög. Þá er gott að atvinnurekandinn er skilningsríkur og hliðrar til ef á þarf að halda.“

Treystir starfsfólk næsta yfirmanni?

Ester fór ekki yfir lækinn til að sækja vatn þegar hún valdi viðfangsefni lokaritgerðar sinnar á Bifröst. Ritgerðin ber yfirskriftina Starfsánægja innan Vinnslustöðvarinnar – treystir starfsfólkið sínum næsta yfirmanni? Leiðbeinandi var Íris Ósk Bergþórsdóttir.

Ritgerðin er „læst“ á skemman.is, safnvef námsritgerða og rannsóknarrita, en birtur útdráttur. Þar kemur fram að aðalmarkmið rannsóknarinnar hafi verið að

„… kanna áhuga starfsmanna VSV á starfsmannasamtölum og að skoða sambandið milli starfsmanna og yfirmanna. Eins og staðan er í dag hjá fyrirtækinu fer starfsfólkið ekki í gegnum frammistöðumat og starfsmannasamtöl eru ekki á dagskrá. Í fyrirtæki eins og VSV fannst rannsakanda það athyglisvert, sérstaklega þar sem í fyrirtækjarekstri er orðið algengt að haldin séu hefðbundin starfsmannasamtöl.“

Niðurstöður viðhorfskönnunar í VSV vegna verkefnisins voru á þá leið að starfsmenn virtust vera

„… hlynntir starfsmannasamtölum og voru einnig frekar ánægðir með sinn yfirmann. Það er mikilvægt að starfsfólk geti treyst sínum yfirmanni og leitað til hans þegar þeim finnst þess þurfa. Miðað við svörun starfsmanna þá var það einna helst hvatningin sem þeim þótti ábótavant. Það er eitthvað sem ætti að vera auðvelt að laga að mati rannsakanda.

 

Deila: