Umtalsverður samdráttur tekna í sjávarútvegi

Deila:

Tekjur í sjávarútvegi drógust verulega saman milli áranna 2015 og 2016. EBITDA lækkaði einnig, en skuldir minnkuðu. Gert er ráð fyrir að afkoma sjávarútvegsins hafi haldið áfram að versna á síðasta ári.

Haustið 2017 fól atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið endurskoðunarskrifstofunni Deloitte að taka saman yfirlit um rekstur sjávarútvegsfélaga á árinu 2016, áætlaða þróun rekstrar þeirra á árinu 2017 og greiningu á áhrifum gengisþróunar á virðiskeðju sjávarútvegsins. Samantekt Deloitte lá fyrir 6. mars sl. og má sjá hér að neðan.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  •        Tekjur í sjávarútvegi drógust saman um 25 milljarða króna eða 9% milli áranna 2015 og 2016. Tekjur lækkuðu hlutfallslega mest hjá sjávarútvegsfyrirtækjum með mestu aflaheimildirnar.
  •        EBITDA sjávarútvegsfyrirtækja lækkaði um 22% milli áranna 2015 og 2016. Sjávarútvegsfyrirtæki náðu þó að einhverju marki að vega upp neikvæða tekjuþróun með lækkun kostnaðar.
  •        Skuldastaða greinarinnar í heild þróaðist með jákvæðum hætti árið 2016 að því leiti að heildarskuldir lækkuðu og eiginfjárhlutfall hækkaði. Greiðslugeta versnaði hins vegar heldur þar sem skuldir sem hlutfall af EBITDA lækkuðu.
  •        Með hliðsjón af hreyfingu helstu hagstærða og útflutningsverðmætis sjávarafurða eru allar líkur á því að afkoma versni nokkuð á rekstrarárinu 2017. Þetta má m.a. rekja til óhagstæðrar þróunar ytri hagstærða. Verðlag sjávarafurða hefur lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hækkað töluvert. Lækkun olíuverðs hefur haft nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016, en á árinu 2017 hefur olíuverð tekið að hækka að nýju.
  •        Deloitte telur að EBITDA sjávarútvegsins geti árið 2017 hafa lækkað um 20-37% frá fyrra ári og nemi á bilinu 37 til 45 milljarðar króna. Gangi það eftir mun EBITDA hafa lækkað um 42-59% frá 2015 til 2017.
  •        Skýrsla Deloitte

 

 

 

Deila: