Ráðuneyti hafnar rannsóknarbeiðni Brims hf. í Ufsabergsmálinu

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafnar beiðni Stillu útgerðar ehf. og Brims hf. um skipan rannsóknarmanna til að kanna tiltekna þætti í starfsemi Vinnslustöðvarinnar og meðferð eigin fjár í tengslum við samruna VSV og Ufsabergs-útgerðar ehf. sem borin var upp á aðalfundi VSV 2. júní 2015. Frá þessu er greint á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Ráðuneytið færir ítarleg rök fyrir niðurstöðu sinni í 15 blaðsíðna greinargerð sem VSV barst afrit af í dag. Skjalið fylgir hér með í heild sinni.

Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni vísar ráðuneytið til álits umboðsmanns Alþingis á því hvað skuli teljast „nægilegar ástæður“ til þess að fallast á tilmæli minni hluthafa um tilnefningu rannsóknarmanna í félagi. Þar skuli horfa til tiltekinnar skýrslu sérfræðinganefndar ESB, sem vísað var til í athugasemdum frumvarps sem varð að lögum nr. 89/2000. Í þeirri skýrslu er áréttað að

tilnefning rannsóknarmanna í starfsemi félags skuli aðeins ákveðin þegar fyrir liggur „alvarlegur grunur“ um óviðeigandi eða óréttmæta háttsemi innan félags svo komið sé í veg fyrir að slík rannsókn sé notuð sem almennt úrræði til óskilgreindrar leitar í fyrirtækinu eða sem tæki til að hótana eða áreitis gagnvart stjórn, stjórnendum eða meirihluta hluthafa (bls. 13 í pdf-skjalinu sem hægt er að ná í hér fyrir neðan).

Í niðurlaginu (bls. 16 í pdf-skjalinu) segir að hlutverk ráðuneytisins sé að meta hvort komnar séu fram nægilegar röksemdir fyrir því að verða við beiðni um tilnefningu rannsóknarmanna:

„Við matið hefur ráðherra tiltekið svigrúm en matið lýtur ekki eingöngu að því að tryggja að réttindi milli hluthafa séu virk heldur verður einnig að horfa til stöðu félagsins sjálfs, m.a. með tilliti til áhrifa sem slíkt inngrip kann að hafa fyrir starfsemi félagsins og ásýnd þess og þess kostnaðar sem félagið mun bera verði krafan samþykkt. Við mat á því hvort „nægilegar ástæður“ séu til að fallast á tilmælin ber að gæta ákveðinnar varfærni og meta atvik og aðstæður að baki tilmælum heildstætt. Mat ráðuneytisins hefur almennt verið nokkuð strangt og byggst á því að sýnt sé fram á að atvik eða aðstæður séu þannig að grunur leiki á að stjórn, stjórnendur eða stærri hluthafar hafi misbeitt valdi sínu eða ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum.

Í ljósi þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins þegar litið er til málsins í heild, þeirra gagna sem borist hafa, sjónarmiða aðila og dóms Hæstaréttar í máli nr. 826/2015 að ekki séu komnar fram nægjanlegar ástæður til þess að samþykkja tilmæli um tilnefningu rannsóknarmanna. Er því tilmælum Stillu útgerðar ehf. og Brims hf. um tilnefningu rannsóknarmanna synjað.“

 

Deila: