Sjávarútvegurinn órjúfanlega tengdur Reykjavíkurborg

Deila:

„Ég vil bara segja það hérna að það er stefnan í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að verja  hér hafnsækna starfsemi á Grandanum og ég afhenti Vilhjálmi forstjóra hina ágætu bók Aðalskipulag Reykjavíkur til 2030 áðan. Þar er þetta mjög skýrt. Sjávarútvegurinn er órjúfanlega tengdur Reykjavíkurborg.“ Þetta sagði S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur og varaformaður stjórnar Faxaflóahafna við móttöku hins nýja skips Engeyjar á föstudag. Hann sagði svo ennfremur:

„Það er gaman þegar fiskiskipaflotinn okkar stækkar og endurnýjast. Það skiptir máli í þessu tilfelli og í sjálfu sér varðandi fiskiskipaflotann að þessi nýju og glæsilegu skip sem koma, að þau fara metur með starfsfólk sitt, aðstæður um borð eru til fyrirmyndar. Það er betur unnið úr aflanum, allt er takið til lands og nýtt, en ekki síst að þessi skip nýta  minni orku en hin eldri og það rímar afskaplega vel við loftlagsstefnu Reykjavíkurborgar og þá þróun sem er í heiminum, þar sem loftlagsmálin eru okkar aðalviðfangsefni hér  næstu áratugum.

Þetta skip er mjög gott dæmi um það, þar sem hugað er mjög vel að allri orkunýtingu og allri meðferð hráefna. Það er Reykjavíkurborg mjög mikilvægt að hér sé rekinn öflugur sjávarútvegur. Reykjavík er nefnilega hafnarborg. Þróunin hér á Grandanum er skemmtileg. Hér hefur fjölbreytnin aukist mjög, en það er engu að síður þannig að mjög mikilvægt er að taka frá og halda rými fyrir sjávarútveginn, svo ekki verði þrengt að sjávarútvegsstarfseminni hér á svæðinu, á Grandanum.

Hins vegar fer þessi starfsemi mjög vel með þeirri þróun sem hefur orðið í aukningu á fjölbreyttu lífi sem hefur skapast hérna. Hér er þjónustan orðin fjölbreytt og hér eru veitingahús og fleira sem er aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

HB Grandi hefur auðvitað lagt sitt að mörkum til að gera Grandann ekki aðeins að öflugu sjávarútvegssvæði heldur jafnframt lagt til samfélagsins með öðrum hætti. Þar er hægt að nefna hið glæsilega útilistaverk sem stendur hér, Þúfu, og svo Marshall húsið sem nýlega var opnað. Þar höfum við Reykjavíkurborg átt mjög farsælt samstarf við HB Granda og kunnum þeim miklar þakkir fyrir þessa myndarlegu uppbyggingu sem þar er.“

Björn Blöndal afhenti Friðleifi Einarssyni skipstjóra á Engey síðan steinplatta til að hafa í brú skipsins, en það er hefð að fulltrúi hafnarstjórnar geri það, þegar ný skip koma til heimahafnar í Reykjavík

 

Deila: