Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar
Í gær komu tveir norskir bátar með loðnu til Neskaupstaðar. Gardar (áður Beitir NK) kom með um 300 tonn og Kings Bay með 600 tonn. Aflinn fékkst í nót um 30 mílur norðaustur af Langanesi. Mikil áta reyndist í loðnunni og því fór einungis takmarkað magn af afla Kings Bay til manneldisvinnslu og ekkert af afla Gardar.
Ole Toft, skipstjóri á Gardar. Ljósm. Hákon Ernuson
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Ole Toft, skipstjóra á Gardar, og spurði hann um veiðarnar hingað til. „Við fórum frá Bergen 31. janúar og komum á miðin sl. fimmtudag. Þá var slæmt veður og við byrjuðum ekki að fiska fyrr en á laugardag. Við fengum um 300 tonn og komum til Neskaupstaðar í gær. Það var mikil áta í loðnunni þannig að hún var ekki frystingarhæf svo við lönduðum í fiskimjölsverksmiðjuna. Það hefur gengið ágætlega að fiska hjá norsku bátunum. Loðnan er stór og falleg en átan skemmir fyrir. Við á Gardar megum veiða 620 tonn af loðnu á Íslandsmiðum og við verðum að fiska í nót. Okkur er óheimilt að fiska í troll. Það eru 10 menn í áhöfn á nótinni,“ sagði Ole Toft.
„Það eru margir Íslendingar sem þekkja Gardar. Gardar hét áður Beitir og var frá Neskaupstað. Gamli Gardar heitir nú Polar Amaroq. Nú ætlum við að bíða hér í höfn í nokkra daga. Við vonumst síðan til að fá átulausa loðnu sem hæf verður til manneldisvinnslu, en fyrir slíkan afla ættum við að fá gott verð,“ sagði Ole Toft að lokum.
Á eftir myndinni eru norsku loðnuskipin Gardar og Kings Bay í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon Ernuson