Orkuskipti í íslenskum höfnum

Deila:

Mótun markvissrar aðgerðaáætlunar um orkuskipti í íslenskum höfnum með uppbyggingu rafinnviða fyrir skip og annarrar haftengdrar starfsemi eru kjarninn í samningi sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag við Íslenska Nýorku og Hafið-Öndvegissetur.  Niðurstöðum verður skilað fyrir árslok.

Sérstaklega verður skoðað með hvaða hætti stjórnvöld geti hvatt til og stuðlað að frekari uppbyggingu innviða og dregið úr bruna jarðefnaeldsneytis og mengun í íslenskum höfnum með notkun innlendrar orku. Samvinna verður við yfirvöld löndunarhafna sem og hafna er þjónusta fraktflutningaskip, farþegaskip og ferðaþjónustubáta og mótaðar lausnir hvernig árangursríkast sé að efla hlut raforku í orkunotkun skipa í höfn. Samhliða verður unnið með orku- og veitufyrirtækjum í tengslum við aðgengi að raforku til hafna.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er mikil áhersla lögð á orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna. Þá kemur fram í ályktun Alþingis frá síðasta ári að stefnt skuli að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir árið 2025.

„Við höfum náð miklum árangri í orkuskiptum í samgöngum á landi og hefur stuðningur við uppbyggingu innviða skipt sköpum í þeirri þróun. Nú þurfum við í meira mæli að beina sjónum að haftengdri starfsemi og þar eru miklir möguleikar fyrir orkuskipti. Því vil ég með þessu framtaki skoða hvernig hægt er að styðja betur við rafvæðingu hafna og auka þannig hlutdeild innlendrar orku í starfsemi skipaflotans. Ríkisstjórnin hefur sett fram það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 og er þetta verkefni liður í því að þessi framtíð verði að veruleika. Ekki er nóg að setja orð á blað heldur þurfum við að virkja samtakamátt og þátttöku sem víðast í atvinnulífinu sem og stjórnkerfinu til að ná árangri í orkuskiptunum framundan,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir:

 

 

Deila: