Fjölmiðlabann?

Deila:

„Þegar viðræðum sjómanna og útvegsmanna var slitið s.l. föstudag setti Ríkissáttasemjari fjölmiðlabann á samninganefndarmenn. Ekki má ræða efnisatriði kjaraviðræðna né það sem skeður á fundum undir stjórn Ríkissáttasemjara.“ Svo segir í bókun frá Sjómannasambandi Íslands um stöðuna í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Þar segir ennfremur:

„Sáttasemjari hafði varla lokið máli sínu þegar SFS greinir frá bókun sem fulltrúar sjómanna settu fram. SFS gerir því skóna að bókunin sé í raun ný krafa frá sjómönnum. Og að sjómenn vilji ekki semja.

Með bókuninni eru fulltrúar sjómanna að leita eftir stuðningi SFS að leita skýringa á mismun á verði á uppsjávarfiski í Noregi og á Íslandi sem hefur verið talsverður og óútskýrður.

Þessi munur hefur orðið til þess að mikil tortryggni hefur skapast milli aðila. Bókunin er tilraun til að ná sátt við útgerðina um verðmyndun á uppsjávarfiski á Íslandi. Að halda því fram að þessi hafi ekki komið fram áður í samtali sjómana og útvegsmanna er útúrsnúningur. Síðasti samningur sem var felldur innibar nálgun á þessi mál í bókun um upplýsingaskyldu útgerða um hvernig verð myndast til sjómanna.

Með bókuninni er einungis verið að skerpa á þessum þáttum og að sjómenn og útvegsmenn vinni saman að því að skýra þennan mun og af hverju hann er tilkominn. Vel má vera að þær skýringar séu ásættanlegar en fyrst þarf að fá þær skýringar.

Ekki er annað að sjá en að SFS hafi gripið þessa tillögu fulltrúa sjómanna fegins hendi sem hálmstrá til að setja samningaviðræður í hnút og kenna fulltrúum sjómanna um að ósekju.“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, hefur vísað ásökunum um brot á fjölmiðabanni á bug. Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa ítrekað að stjórnvöld muni ekki koma að lausn deilunnar enda sé hún á ábyrgð sjómanna og útvegsmanna. Á hinn bóginn sé verið að vinna að yfirliti um efnahagsleg áhrif verkfallsins.

Skiptar skoðanir eru um þessa afstöðu.  Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hann væri ekki talsmaður lagasetningar á deiluna en hins vegar vildi hann ekki útiloka að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum öðrum hætti en lagasetningu. „Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu,“ sagði Páll í morgun.

Enginn fundur hefur verið boðaður í deilunni á næstu dögum.

 

Deila: