Óljós staða strandveiða

Deila:

„Að loknum strandveiðum 2017 er staða veiðanna óljósari en oft áður. Aldrei hafði jafnmikið af aflaheimildum verið sett inn í kerfið en þrátt fyrir það höfðu aldrei jafn fáir bátar sótt strandveiðarnar frá því þær hófust árið 2009. Vegna lélegs afurðaverðs á fiskmörkuðum skiluðu aukin aflabrögð ekki meiri pening í pyngjuna. Þess í stað voru heildaraflaverðmæti á bát að meðaltali lægri en á síðastliðnu ári þrátt fyrir að hver bátur aflaði um 20-30% meira.“

Þetta er ein af niðurstöðum skýrslu um strandveiðar sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri vann fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Samtekt  skýrslunnar er eftirfarandi:

Á þeim árum sem strandveiðar hafa verið stundaðar hafa þær vakið upp stemmingu í höfnum landsins. Sérstaklega í smáum höfnum sem liggja nálægt gjöfulum fiskimiðum. Arnarstapi er dæmi um eina slíka en í byrjun maímánaðar er ekki óalgengt að sjá um 40-50 báta bundna saman í þremur lengjum út frá bryggjukantinum. Þrátt fyrir þennan fjölda af bátum eru áhrifin skammvinn fyrir samfélagið því sjómennirnir eru oft á tíðum einungis staddir á svæðinu á meðan opið er fyrir veiðar. Því markar einstaklingur ekki djúp spor er hann kemur út á land til þess eins að stunda strandveiði.

Á fyrsta ári strandveiða var hámarksafli bundinn við magn upp úr sjó, sama hvaða tegund fiskaðist. Það hafði þann galla í för með sér að lítill hvati var til að hirða allan afla sem kom inn fyrir borðstokkinn ef það var eitthvað annað en þorskur. Því var ákveðið að festa hámarkskvótann í þorskígildi og reyndist það vel næstu árin, á meðan verð á ufsa fór hækkandi. Þetta gaf strandveiðisjómönnum auka leið til að bjarga róðri með mannsæmandi aflaverðmætum ef þorskurinn var tregur til en ufsinn var að gefa sig.

Meðan verð fer hækkandi er þorskígildisstuðullinn að vinna með strandveiðisjómönnum þar sem hann er reiknaður út frá verði síðasta árs. Um leið og verð fer lækkandi gerir stuðullinn sjómönnum erfitt fyrir að fiska aukategundir því verðmætin eru ekki nægilega mikil. Þrátt fyrir að verð á ufsa hafi lækkað úr 164 kr/kg árið 2015 í 69 kr/kg árið 2017 breyttist þorskígildisstuðullinn lítið, eða úr 0,81 í 0,79. Á fiskveiðiárinu 2017/18 er stuðullinn 0,72. Ef borið er saman meðalverð á þorski og ufsa á strandveiðum hefði stuðullinn átt að vera 0,35. Þorskígildisstuðullinn reiknast þó einnig út frá aflaverðmætum sem fást frá öðrum veiðarfærum á ufsa. Verð fyrir ufsaafla frá öðrum veiðarfærum er enn nokkuð hátt og annað en verð til strandveiðisjómanna og því lækkar þorskígildisstuðullinn ekki.

Mikil ánægja var með strandveiðikerfið eftir fyrsta árið en ánægja með kerfið hefur dvínað, sem verður að teljast eðlilegt þar sem fiskverð hefur lækkað mikið. Margt spilar þar inn en tveir veigamiklir þættir eru gengisstyrking krónunnar og forsendubreytingar sem orðið hafa á ufsaveiðum innan kerfisins. Markaðurinn hefur einnig lært inn á strandveiðikerfið og þekkt er að fyrstu vikur hvers mánaðar að sumri til hrúgast fiskur inn á markað frá strandveiðibátum og sem leiðir til lækkunar verðs á mörkuðum. Bátar á krókaflamarki hafa þannig gjarnan beðið eftir í höfninni á meðan þetta gengur yfir.

Strandveiðarnar eru eini hluti íslensks sjávarútvegs sem er ekki að einhverju leyti markaðsdrifinn. Strandveiðisjómenn sitja því ekki við sama borð og aðrir þegar kemur að vali um það hvenær haldið skuli til veiða í því markmiði að skila inn sem verðmætastri afurð til lands. Til að koma til móts við þetta er mikil umræða meðal strandveiðisjómanna um að liðka um fyrir sjómönnum með því að taka upp vikuhámark, skipstjórar ráði hvaða daga veitt sé eða fara aftur í sóknarmark. Allt miðar þetta að hagræðingu á veiðum þegar kreppir að strandveiðiútgerð. Langflestir strandveiðisjómenn hafa líklega lent í því að þurfa að hætta í góðu fiskiríi af því að þeir voru að verða komnir með skammtinn.

Hinn dæmigerði strandveiðisjómaður er karlmaður yfir 50 ára aldri, gerir út á bátnum sínum einn í áhöfn og með 4 rúllur um borð. Hann hefur áður unnið í sjávarútvegi eða starfar í sjávarútvegi samhliða strandveiðum. Það tekur hann um 11 daga að gera bátinn tilbúinn til veiða, hann selur allan afla á markað og heildartekjur eftir vertíðina eru tæplega milljón krónur.

Eitt af yfirlýstum markmiðum með strandveiðikerfinu var að auka nýliðun í kerfinu. Árið 2009 höfðu 20% útgerðaraðila ekki verið viðloðandi útgerðarrekstur áður. Árið 2017 var þetta hlutfall 10%. Um 36% þeirra bátaútgerða sem svöruðu spurningalistanum árið 2017 eru útgerðir reknar af aðilum sem hófu sinn útgerðarferil í strandveiðum. Samkvæmt úttektinni hafa um 5 % þeirra sem hófu útgerð á strandveiðum og stunduðu veiðar í ár keypt til sín aflaheimildir. Ekki er hægt að útiloka að útgerð sem byrjaði á strandveiðum sé í dag eingöngu að veiða utan strandveiðikerfisins. Þær útgerðir sem byrjuðu á einhverjum tímapunkti í strandveiðum en eru nú utan strandveiða og stunduðu ekki strandveiðar 2017 ná ekki inn í þessa úttekt þar sem könnunin var einungis send á strandveiðisjómenn sem stunduðu veiðarnar árið 2017.

Strandveiðikerfið hefur ekki verið sú brú fyrir nýliða inn í aflamarkskerfið sem vonast var eftir. Að sama skapi vara veiðarnar ekki nægilega lengi til að strandveiðiútgerð sé raunhæfur atvinnumöguleiki allt árið og því hætt við því að talað verði um strandveiðikerfið sem „hobbysjómennsku“. Nokkrir aðilar sem rætt var við nefndu að ein megin ástæða þess að þeir hefðu  upphaflega farið í kerfið hefði verið til að afla veiðireynslu ef ske kynni að kerfið yrði aflagt og strandveiðisjómönnum úthlutað aflamarki byggt á veiðireynslunni.

Þann 4. ágúst 2017 var auka afla veitt í strandveiðikerfið til að auka dagafjöldann sem veiðar voru stundaðar í ágústmánuði. Það er skemmst frá því að segja að veiðar í ágúst vörðu mun lengur samanborið við í ágúst 2016 og náðist markmið ráðherra að lengja veiðitímabilið um 2 daga á öllum svæðum þennan mánuðinn. Aðeins einu sinni áður hafði svæði A fengið jafn marga daga í ágústmánuði sem var árið 2014.

Litlar breytingar hafa verið gerðar á strandveiðum síðan þær voru settar á og nægir þar að nefna að refsingar og viðurlög eru enn þau sömu, sem og hlutdeild mánaða innan svæða sem ekki hefur verið breytt eða endurskoðað frá 2010 til að aðlaga betur að hvernig fiskast á hverju svæði fyrir sig á hverjum árstíma.“

Deila: