Börkur með 2.000 tonn af hrognaloðnu

Deila:

Börkur NK er á leið austur til Neskaupstaðar með 2.000 tonn af loðnu. Gert er ráð fyrir að hann komi til hafnar klukkan eitt í nótt og þá strax hefst hrognavinnsla hjá Síldarvinnslunni. Heimasíða Síldarvinnslunnar hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra í morgun þegar skipið var statt út af Alviðru.

„Við fengum þennan afla í sjö köstum á tveimur dögum. Fyrri daginn vorum við á miðjum Faxaflóa en í gær vorum við um 10 mílur út af Snæfellsnesi. Út af nesinu var ein góð torfa sem megnið af flotanum var í og var hún nánast veidd upp. Það er víða loðnu að sjá en það er eins og hún hafi lítið skilað sér inn á Faxaflóann. Auðvitað er alltaf beðið eftir fréttum af vestangöngu. Undanfarin ár hefur komið góð gusa að vestan en þá hafa skipin oft verið búin með kvótann. Í loðnunni sem við erum með núna er hrognafyllingin á milli 26 og 27% og hrognaþroskinn 95-100%. Þetta ætti að henta vel í hrognavinnsluna,“ sagði Hjörvar.

Deila: