Sjávarbyggðafræði, nýtt meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða

Deila:

Ný námsleið á meistarastigi, Sjávarbyggðafræði, hefur göngu sína við Háskólasetur Vestfjarða í lok ágúst 2018. Sjávarbyggðafræði er þverfræðilegt nám sem byggir á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, landfræði og skipulagsfræði. Námið er fyrsta sérhæfða námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á hér á landi og því má segja að um ákveðin tímamót sé að ræða hvað þessa fræðigrein varðar. Frá þessu er grein á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

Frá árinu 2008 hefur Háskólasetur Vestfjarða starfrækt þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindastjórnun með áherslu á hafið og ströndina í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Reynslan af Haf- og strandsvæðastjórnunarnáminu hefur verið góð og hafa rúmlega 20 nemendur innritast í það árlega og yfir 100 nemendur útskrifast. Sjávarbyggðafræðin byggir á þessum góða grunni og verður fyrirkomulag námsins með svipuðu sniði. Báðar námsleiðirnar eru alþjóðlegar og kenndar á ensku en áhersla er lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar. Líkt og núverandi námsleið er Sjávarbyggðafræðin 120 ECTS meistaranám sem samanstendur af 75 ECTS námskeiðum og 45 ECTS lokaverkefni. Öll kennsla fer fram við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði en nemendur eru formlega skráðir í Háskólann á Akureyri og útskrifast þaðan.

„Með nýju námsleiðinni má segja að Háskólasetrið standi í tvo sterkar fætur í stað eins“, segir Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Mikil samlegðaráhrif skapast með tilkomu Sjávarbyggðafræðinnar eins og Peter bendir einnig á. „Samlegðaráhrifin eru að hluta til fjárhagsleg með margskonar samnýtingu á milli námsleiðanna hvað varðar kennslu og þjónustu. Mikilvægara er þó að krítískur massi stofnunarinnar eykst. Sérstakur fagstjóri verður ráðinn fyrir Sjávarbyggðafræðina sem hefur í för með sér að fagstjórar geta gengið í störf hvors annars og tryggt að verkum sé sinnt ef upp koma forföll. Aukinn fjöldi nemenda gerir staðinn áhugaverðari til að stunda nám á og að lokum eflir þetta rannsóknarumhverfi Vestfjarða með aukinni rannsóknargetu á svæðinu.“

Eins og áður segir er námið fyrsta heila námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á á Íslandi. Sjávarbyggðafræðin verður því mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi og mun vega þungt við að koma byggðamálum betur á dagskrá sem viðfangsefni á háskólastigi eins og er tilfellið í flestum löndunum í kringum okkur. Þar að auki er námsleið í sjávarbyggðafræðum bein byggðaaðgerð fyrir Vestfirði enda er reiknað með að í kringum 20 nýir námsmenn bætist við árlega. Úttekt Atvinnuþróunarfélgas Vestfjarða hefur leitt í ljós að fyrir hverja krónu sem rennur af fjárlögum til Háskólasetursins fara tvær krónur út í vestfirskt hagkerfi. Jafnframt því að styrkja Vestfirði styrkir námsleiðin Háskólann á Akureyri enda eru nemendur námsleiðanna tveggja formlega nemendur HA.

Sjávarbyggðafræði hefur verið á teikniborði Háskólaseturs allt frá árinu 2010. Á þeim tíma var ekki útlit fyrir að mögulegt væri að fjármagna námsleiðina og því gerðist lítið næstu árin. Árið 2014 var málið tekið upp á ný á stefnumótunarfundi og upp úr því var unnið markvisst að því að koma námsleiðinni á fót. Stjórn Háskólaseturs tilnefndi undirbúningsnefnd sem þrír háskólakennarar áttu sæti í ásamt forstöðumanni. Þessir þrír voru Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við HÍ og Kristinn Hermannsson, dósent við University of Glasgow. Undirbúningsnefndin lauk vinnu sumarið 2016 og við tók undirbúningur fyrir fullgildingu námsleiðarinnar hjá Háskólanum á Akureyri. Fullgildingarferlinu lauk um áramótin 2016/2017. Námsleiðin hafði verið meðal tillagna svokallaðrar Vestfjarðanefndar, sem skilaði af sér í september 2016, en tillögurnar voru þá ófjármagnaðar. Síðastliðið eitt og hálft ár hefur verið unnið að fjármögnun námsleiðarinnar.

Í síðustu viku bárust fregnir af því að síðasta púslið í fjármögnun námsleiðarinnar væri til reiðu með framlagi frá menntamálaráðuneytinu fyrsta árið og vilyrði fyrir fjármögnun til lengri tíma að ákveðnum forsendum uppfylltum. Áður hafði 70% fjármagnsins verið tryggt fyrir fyrstu misseri námsins með framlagi úr Sóknaráætlun Vestfjarða og með eigin framlagi Háskólaseturs í formi samlegðarárhifa og skráningargjalda.

Þess má svo geta að í hádeginu föstudaginn 16. mars næstkomandi fer fram kynning á Sjávarbyggðafræði í Vísindaporti Háskólaseturs og þar gefst öllum áhugasömum kostur á að fræðast betur um námsleiðina.

Með tilkomu Sjávarbyggðafræðinnar stígur Háskólasetur Vestfjarða stærsta skrefið í framþróun setursins síðan námsleiðinni Haf- og strandsvæðastjórnun var ýtt úr vör haustið 2008.

 

Deila: