Þungvopnaðir hermenn gæta skipanna

Deila:

Togararnir Breki VE og Páll Pálsson ÍS fara um hættusvæði vegna sjórána á heimleið frá Kína. Þungvopnaðir hermenn gæta öryggis skipanna og voru með skotæfingu á laugardag í Breka. Svipaða sögu er að segja af Páli Pálssyni ÍS en skipin eru samferða á heimleiðini.

„Þetta eru framandi aðstæður fyrir okkur. Við tókum þrjá hermenn um borð í Colombó, höfuðborg Sri Lanka og þeir verða með okkur til Rauðahafs, Rúmeni og tveir Indverjar. Þeir hafa með sér gríðarlegan vopnabúnað, það duga greinilega engar kindabyssur í þessum bransa!“ sagði Magnús Ríkarðsson, skipstjóri á Breka í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar á laugardagskvöld.

Hermennirnir teknir um borð, en þeir voru með ýmsan búnað með sér og mikið af vopnum.

Hermennirnir teknir um borð, en þeir voru með ýmsan búnað með sér og mikið af vopnum.

Skipið var þá á siglingu  austan Indlands á leið til Miðjarðarhafs um Súesskurð. Miðnætti nálgaðist að staðartíma, lofthitinn var 32 gráður og sjávarhiti 30,2 gráður!

„Hitasvækjan er agaleg og eina vandamálið okkar hingað til. Staðan verður ekki þolanleg fyrr en við komum á Miðjarðarhaf, þá fer lofthitinn niður í „bara“ 20-25 gráður.“

– Er skrekkur í mannskapnum vegna siglingar um sjóránssvæðið umtalaða í næstu viku?

„Nei, nei. Ástandið er annað og betra en var fyrir nokkrum árum þegar skipum var rænt dag eftir dag á þessum slóðum, í sundinu á milli Sómalíu og Jemens. Nú eru gerðar alþjóðlegar ráðstafanir til að auka öryggi á siglingaleiðinni og skip fylgjast að. Ein skipalest siglir til dæmis á 10 mílna hraða, önnur á tólf mílna hraða. Við þurfum að stilla okkur af og slást í för með öðrum skipum sem halda sama hraða og megum ekki slá af, hvað þá stoppa.“

Gaddavír í skutrennu er ætlað að halda frá sjóræningjum. Og ef þeir skyldu nú voga sér að reyna að komast um borð er hermönnum að mæta og þeim ekki allslausum. Í vopnabúri þeirra er ekki kindabyssu að finna, segir Magnús skipstjóri.

Gaddavír í skutrennu er ætlað að halda frá sjóræningjum. Og ef þeir skyldu nú voga sér að reyna að komast um borð er hermönnum að mæta og þeim ekki allslausum. Í vopnabúri þeirra er ekki kindabyssu að finna, segir Magnús skipstjóri.

– Til hvaða ráða grípa hermennirnir hjá þér ef óboðnir dólgar reyna að komast um borð?

„Ja, þeir grípa ekki til skotvopna nema ég sem skipstjóri gefi slík fyrirmæli. Þeir voru með æfingu hér um borð í dag og skutu í sjóinn.

Ætli yrði ekki byrjað með aðvörunarskotum en mér skilst að það hafi mikinn fælingarmátt í sjálfu sér að sjáist til vopnaðra manna um borð.

Þremenningarnir eru gerðir út af öryggisfyrirtæki og vita hvað þeir eru að gera. Þetta er allt heldur óraunverulegt.“

– Í þessum hita hjá ykkur, er ekki biðröð í kalda sturtu til að kæla sig niður?

„Það væri nú lúxus að hafa raunverulega kalt vatn í sturtum, við stungum mæli í „kalda vatnið“ í dag og það reyndist 35 gráður, eiginlega of heitt til að baða sig í! Stálmassi skipsins hitnar og hitar allt vatnið í kerfinu

Okkur gengur ekki of vel að sofa í svækjunni, ég svaf til að mynda sjálfur úti í léttabátnum. Menn hafa sofið á togdekkinu og jafnvel í lestum skipsins.

Við tókum olíu í Colombo og keyptum um leið viftur og kæligræjur til að reyna að koma hitanum um borð niður fyrir 30 gráður. Baráttan við hitann er ekkert grín.

Breki reynist annars vel og ferðin er braslaus að öllu leyti. Við erum meira að segja heldur á undan áætlun.

Hitinn er aðalvandamálið. Sól og blíða er í góðu lagi en fyrr má nú vera!”

 

Deila: