Ufsinn kemur í slurkum

Deila:

Ísfisktogarinn Engey RE er nú í sínum öðrum túr eftir nokkrar frátafir vegna ársskoðunar sem framkvæmd var í slipp í Reykjavík. Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Engey, segir aflabrögðin vera ágæt en þau hafi aðeins dalað eftir páskana.

,,Við komumst út á Skírdag og vorum að veiðum fram yfir páska. Aflinn var fullfermi, 600 kör af fiski, en það samsvarar um 180 tonnum,“ segir Friðleifur en er heimasíða HB Granda náði tali af honum var Engey stödd á Selvogsbanka í gær. Þar verða síðustu holin tekin að þessu sinni en skipið er væntanlegt til hafnar í Reykjavík um hádegisbilið í dag.

,,Við fórum úr höfn á miðnætti sl. miðvikudag og höfum lengst verið á Fjöllunum og svæðinu þar í kring. Það er nóg af gullkarfa en við höfum mest lagt okkur eftir því að finna og veiða ufsa. Það hefur gengið upp og ofan. Ufsinn kemur í slurkum. Einn daginn er hægt að hitta á góða ufsaveiði en svo er ekkert að hafa þann næsta,“ segir Friðleifur en hann segir ufsann vera af ágætri vertíðarstærð en meira hafi borið á heldur smærri ufsa í yfirstandandi veiðiferð.

,,Það er smástreymt þannig að það eru ekki kjöraðstæður fyrir ufsaveiði en við ætlum að verja þessum síðasta degi á Selvogsbankanum. Við vonumst til að fá eitthvað af ufsa með þorskinum. Reyndar hefur þorskveiðin oft verið betri en svo virðist sem að mest af þorskinum haldi sig innan tólf mílna markanna og inn fyrir þá línu megum við ekki fara. Minni togskipin eru hins vegar að fá fínustu þorskveiði innan við línuna,“ segir Friðleifur Einarsson.

Deila: