Kiddó bróðir á orðu skilið fyrir að þola mig

Deila:

Grindvíkingurinn Óðinn Arnberg er maður vikunnar á Kvótanum í dag. Hann er góður fulltrúi sjómannastéttarinnar í tilefni sjómannadagsins á sunnudaginn. Óðinn byrjaði barnungur að salta síld með mömmu sinni, en er nú skipstjóri á Óla á Stað frá Grindavík, sem er 30 tonna línubeitningabátur í litla kerfinu, gerður út af Stakkavík.

Nafn?

Óðinn Arnberg Kristinsson.

 Hvaðan ertu?

Fyrstu 7 árin bjó ég á Grundarfirði en svo er það Grindavík.  

Fjölskylduhagir?

Bý einn á tvö börn.

Hvar starfar þú núna?

Ég er skipstjóri  á Óla á Stað GK 99.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Fyrir utan að hafa hjálpað mömmu við að salta ofan í tunnu í Gjögri 8 ára, þar sem tásurnar stóðu upp úr tunnunni, þá byrjaði ég að vinna í Hópi 12 ára hjá honum Gylfa heitnum.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Maður er nokkuð viss um að þegar að þessum vinnudegi er lokið þá fær maður nýjan dag með nýjum verkefnum, jafnvel þó svo að maður fari inní daginn á sömu forsendum.

En það erfiðasta?

Stundum er erfitt að þegja, það má ekki segja ýmis orð þegar maður er skipstjóri.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Vá! Gæti verið þegar að ég fór með Gullfaxa, 63 tonna bát sem pabbi átti. Þannig var mál með vexti að ég var að fara inn á Rif á Snæfellsnesinu og það var skítaveður og báturinn með léleg tæki og þegar að í innsiglinguna var komið, þá fundum við loksins töskuna sem átti að vera stjórnborðsmegin við bátinn en hún var bakborðsmegin og það var of seint að bakka og stefndi allt í óefni. Þegar að ég finn að það er alda að koma undir bátinn að aftan og ég rak olíugjöfina í botn og fór yfir á öldunni, sem á víst ekki að vera hægt. Það skulfu öll bein í mér þegar að við vorum að binda bátinn við bryggju, strákarnir sögðu að ég hefði aðeins rekið bátinn niður, enn ég fann það ekki ég var svo stressaður.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru nokkrir, held samt að Kiddó bróðir eigi orðu skilið fyrir að þola mig öll þessi ár.

Hver eru áhugamál þín?

Tónlist, góðar bíómyndir, börnin og ýmislegt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Góður fiskur og lambið.

Hvert færir þú í draumfríið?

Þrátt fyrir að vera mikið á sjó, þá langar mig að fara á skemmtiskip í afslöppun.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: