Stórir en litlir þó

Deila:

„Þótt Íslendingar séu fremstir meðal jafningja þegar kemur að sjávarútvegi, er fjarri því að íslenskur sjávarútvegur sé með þeim umsvifamestu í heiminum. Reyndar töluvert langt frá því. Langstærsta sjávarútvegsþjóð í heimi eru Japanir, með um 39% af heimssölunni, Bandaríkin koma næst með um 12%, Noregur 10% en Ísland er í kringum 1%.“

Svo segir í pistli, sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur svo:

„Af einstaka fyrirtækjum nær Samherji í 40. sæti, en ekkert annað íslenskt fyrirtæki er á lista yfir 100 stærstu fyrirtæki heims í sjávarútvegi. Þessar staðreyndir varpa nokkuð skýru ljósi á þá alþjóðlegu samkeppni sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga í. Í ljósi stærðarinnar má segja að það sé merkilegt hversu góðum árangri Íslendingar hafa náð í veiðum, vinnslu og sölu á sjávarfangi.

Alþjóðleg samkeppni tekur ekki mið af því hvernig mál velkjast á Íslandi. Eða með öðrum orðum; hlutur Íslands er það lítill á hinum alþjóðlega markaði með sjávarafurðir að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki verða að haga sér í samræmi við það sem þar gerist og býðst hverju sinni. Hér ber að hafa rækilega hugfast að rúmlega 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum markaði.

Þegar hækkun á kostnaði verður á Íslandi geta íslensk sjávarútvegsfyrirtæki einfaldlega ekki bætt þeirri hækkun við verð á afurðum. Öðru máli gildir til dæmis um hækkun á verði á olíu á heimsmarkaði. Allir sem sækja sjóinn, hvar í heimi sem þeir eru staddir, verða þá að kaupa olíu við hærra verði, ekki bara íslensk útgerðarfélög. Slík hækkun hefur því engin áhrif á samkeppnishæfi sjávarútvegs á Íslandi. Þegar hækkanir verða raktar til aðgerða hér á landi, hvort sem það eru hækkun á launum, veiðigjaldi, kolefnisgjaldi, tryggingagjaldi, tryggingum eða öðru, þá dregur það úr samkeppnishæfni íslensku fyrirtækjanna. Og merkilegt má það heita, að íslenskur sjávarútvegur er sá eini meðal landa í OECD sem greiðir veiðigjald. Nánast alls staðar annars staðar er sjávarútvegur ríkisstyrktur.

Sterkur sjávarútvegur á Íslandi er allra hagur. Mörg þjónustufyrirtæki stóla mjög á sterkan sjávarútveg og mörg framsækin hátæknifyrirtæki hafa beinlínis orðið til fyrir tilstuðlan fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki keyptu þjónustu af tæknifyrirtækjum fyrir tæpa 50 milljarða króna á árinu 2016 samkvæmt úttekt Deloitte. Og því hefur verið spáð að þess verði ekki langt að bíða að sala á tæknibúnaði og þekkingu í sjávarútvegi verði meiri en útflutningur á þorskflökum. Það er afrakstur samvinnu íslensks sjávarútvegs og tæknifyrirtækjanna og mun skjóta enn fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf.

Hér hefur verið gerð tilraun til að varpa ljósi á það, við hvaða aðstæður íslensku sjávarútvegur starfar og mjög ánægjulegum hliðaráhrifum hans. Þegar rætt er um að leggja frekari álögur á greinina er rétt að menn hafi í huga að íslenskur sjávarútvegur er ekki eyland, þvert á móti er hann algerlega háður því sem er að gerast á alþjóðlegum markaði. Í annan stað hafa fjárfestingar íslensks sjávarútvegs haft mikla þýðingu fyrir vöxt og viðgang fjölmargra glæsilegra fyrirtækja sem nú flytja út vörur og þjónustu fyrir tugi milljarða. Minni samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðlegum markaði og minni fjárfestingar munu hafa neikvæð áhrif; ekki bara á sjávarútveginn heldur fjölmörg önnur fyrirtæki, vítt og breytt um landið. Það væri tilvalið ef stjórnmálamenn gaumgæfðu heildarmyndina, öðru hvoru.“
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: